136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

opinn fundur í fjárlaganefnd – afgreiðsla sérnefndar á frumvarpi um stjórnarskipunarlög.

[13:38]
Horfa

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Fundurinn í morgun í fjárlaganefnd var ágætur, góð skoðanaskipti og þess háttar. Það sem mér finnst hins vegar standa upp úr, bæði eftir þann fund og þegar ég lít til baka er aðgangur Alþingis að upplýsingum. Það virðist vera alveg útilokað að fá að vita hvað er í gangi milli stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Úr því þarf að bæta að mínu viti og það er ekki nýtt.

Síðan varðandi framkvæmd fjárlaga. Það hefur allt of mikið verið um það undanfarin ár að fjárlaganefnd hefur hreinlega ekki fengið upplýsingar um framvindu fjárlaga fyrr en allt of seint þannig að eftirlitshlutverk fjárlaganefndar og þingsins er í raun og veru ekki virkt þess vegna. Það verður að vinda bráðan bug að þessum málum, bæði að þjóðþingið og einstaka nefndir fái að vita meira um — jafnvel í trúnaði — hvaða samskipti eiga sér stað milli stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er ekki nógu gott að þjóðþingið fái ekki að vita hvað þar er í gangi fyrr en eftir að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur fjallað um málið. Fyrir mitt leyti geri ég hreinlega kröfu um það að þessum vinnubrögðum verði breytt.

Síðan vil ég minnast á framkvæmd fjárlaga. Við höfum margoft rætt hana hér og hæstv. fjármálaráðherra gaf munnleg svör við einstökum spurningum en að mínu viti voru þau ekki mjög beinskeytt. Fjárlaganefndin þarf því að fá miklu gleggri upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu um það hvernig framkvæmd fjárlaga gengur. Liðnir eru þrír mánuðir, fyrsti ársfjórðungur er liðinn og fjárlaganefnd hefur ekki enn þá fengið nein gögn til upplýsinga um það hvernig framkvæmd fjárlaga miðar á þessu ári í því ástandi sem nú ríkir.