136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að gera athugasemd við það í fyrsta lagi að ég hafi staðið í einhverju málþófi með efnislegri ræðu minni áðan. Ég fór eingöngu mjög efnislega yfir þetta frumvarp, tilurð þess og talaði um hvernig ég teldi að standa ætti að gerð stjórnarskrár. Ég endurspeglaði í þeim efnum mjög almenn viðhorf sem uppi eru um þau mál í þjóðfélagi okkar. Ég skírskotaði til umsagnaraðila fjölmargra sérfræðinga í þessum efnum og alþingismanna. Ég valdi auðvitað af kostgæfni þingmenn í því sambandi sem komu úr stjórnarliðinu vegna þess að ég taldi að það mundi ljá röksemdum mínum ákveðið vægi. Ég vísaði til mætra og öflugra stjórnmálamanna úr Samfylkingunni og Vinstri grænum sem vilja vanda sig við lagasetningu og þeir hafa sömu sjónarmið og ég hef í þeim efnum.

Það er ekki verið að gera tilraun til þess að koma í veg fyrir eitt né annað með málflutningi okkar sjálfstæðismanna. Við erum eingöngu að hvetja til þess að þessi mál verði unnin betur og unnin í meiri sátt þannig að við getum náð þeim markmiðum sem hv. þingmaður kallaði eftir. Ég sagði það skýrt og skorinort hér áðan að ég teldi að það sem verið væri að fást við, til að mynda í 1. gr. frumvarpsins, væri verkefni sem við ættum að vinna að, hvernig skýra ætti þjóðareignarhugtakið þannig að um það væri sem minnstur ágreiningur. Ég geri ráð fyrir því að einhvern tíma geti sprottið ágreiningur, ég er ekki svo bjartsýnn eða barnalegur að ímynda mér að hægt sé að afstýra því algjörlega.

Nákvæmlega sama er varðandi þjóðaratkvæði. Við sjálfstæðismenn höfum áður lagt fram hugmyndir um hvernig standa ætti að þjóðaratkvæði. Það er hins vegar ekki alveg augljóst mál og það er nokkuð sem við eigum að vinna í og ég hvatti til þess að það yrði unnið með þeim hætti að því mætti ljúka á þessu ári.