136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:21]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta var fróðleg ræða og þess virði að út í hana sé spurt. Ræðumaður komst ekki í mikla efnislega umræðu því að hann varði tíma sínum fyrst og fremst í að ræða um vinnubrögð og starfshætti, líka í sögulegu ljósi. Var fróðlegt að heyra bollaleggingar hans um þau efni. Það eina sem hann komst nálægt hinum efnislega kjarna þessa frumvarps var að hann taldi að um þjóðaratkvæðagreiðslur ætti að setja sérlög en um þau ætti ekki að fjalla í stjórnarskrá. Þá liggur beint við að spyrja: Er það ástæðan fyrir því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er á móti þessu frumvarpi?

Í öðru lagi nefndi hann í lokin að á bak við eina umsögnina um frumvarpið sem jákvæð hefði verið stæðu samtök hverra formaður tilheyrði ákveðnum stjórnmálaflokki og þess vegna er full ástæða til að spyrja hinn glögga ræðumann hvort hann hafi gert frekari pólitískar analýsur á flokksaðild þeirra sem umsagnirnar skrifa eða eru í forustu fyrir þeim samtökum sem umsagnirnar hafa veitt. Það er fróðlegt að fá að heyra þetta því að þarna er fitjað upp á alveg nýrri yfirferð yfir umsagnir á þinginu. Það væri gaman að vita hvað hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur fengið út úr flokkspólitískri greiningu sinni á bakhjörlum umsagnaraðila.