136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:32]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Atli Gíslason getur ekki horft fram hjá vinnubrögðunum núna í tengslum við þetta mál, maður sem hefur talað fyrir faglegum verkferlum og opinni og lýðræðislegri umræðu á þinginu. Hann kemur síðan hingað upp og vill bara ýta vinnubrögðunum til hliðar. Við verðum að horfa til vinnubragðanna í þessu máli eins og öðrum eins og hv. þingmaður hefur gert. Ef vinnubrögðin í tengslum við vinnslu þessa máls væru ásættanleg kæmi það fram í umsögnum um málið. Svo er ekki.

Varðandi afstöðu mína til einstakra greina get ég, eins og ég sagði, fallist á breytingu á 79. gr. en hef miklar efasemdir um aðrar greinar frumvarpsins. Ég minnist þess að árið 2007 þegar ég sat í sérnefnd um stjórnarskrármál komu ýmsir sérfræðingar til að fjalla um hugtakið þjóðareign og gerðu nákvæmlega sömu athugasemdir og fram koma í þessum umsögnum. Það gerði t.d. Björg Thorarensen og ég er með þá punkta sem ég skrifaði hjá mér við þá meðferð. Hún taldi þá að það væri eignarréttarbragur á því ákvæði sem við fjölluðum um þá, alveg eins og ákvæði 1. gr. þessa frumvarps, og sagði beinlínis að með því að nota hugtakið þjóðareign væri verið að rugla skilninginn á hugtakinu. Eiríkur Tómasson talaði um að ákvæðið eins og það var þá væri óskýrt, vísaði til eignarréttarins og miklu nær væri að tala um ríkiseign á auðlindunum. Af hverju er það ekki gert? Væri það ekki skýrara að mati hv. þm. Atla Gíslasonar?

Ég hlýt að hafa miklar efasemdir (Forseti hringir.) um ákvæðið eins og það er, eins og nánast allir (Forseti hringir.) umsagnaraðilar um þetta mál.