136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:29]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýddi á ræðu hv. þm. Sturlu Böðvarssonar svo til alla. Stór hluti ræðunnar fór í að rifja upp hvað sagt hefði verið um stjórnarskrármálið í gegnum tíðina. Í ræðu sinni nefndi hann hins vegar að það væri ófært að flutningsmenn þessa frumvarps væru að efna til óróleika og ófriðar í samfélaginu. Með öðrum orðum að þær hugmyndir sem fram koma í þessu frumvarpi séu til þess fallnar að skapa ófrið í samfélaginu.

Ég hef ekki orðið var við þann ófrið en ég hef orðið var við að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilja ekki að þetta stjórnarskrárfrumvarp verði að lögum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um það hvort þessar hugmyndir hans um ófrið og óróleika eigi rætur sínar að rekja til þess að í frumvarpinu er lagt til að náttúruauðlindir verði varanlega í þjóðareign, að þær verði með öðrum orðum ekki látnar varanlega af hendi. Heldur hv. þingmaður því fram að þetta ákvæði valdi ófriði og óróleika í samfélaginu?

Ég vildi einnig spyrja hv. þingmann hvort líklegt sé að hugmyndir um að almenningur fái aukinn rétt til þess að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslur um mál er varða almannahag standi undir þeim stóru orðum að framlagning frumvarpsins skapi hvort tveggja óróleika og ófrið í íslensku samfélagi.