136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:20]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fram komu svo margar spurningar að ég efast um að ég geti svarað þeim í stuttu andsvari en ég mun gera það í næstu ræðu minni sem ég vænti að verði á þessum sólarhring eða alla vega á þeim næsta. Hv. þm. Atli Gíslason talar um málþóf og drengjamet og annað í þeim dúr en ef Sjálfstæðisflokkurinn á drengjametið hlýtur hann að álykta sem svo að Vinstri grænir eigi alþjóðlegt víðáttumet í greininni, en það er annað.

Silfur Egils horfði ég ekki á, hafði annað og merkara við tímann að gera en að hlusta á þann innihaldsrýra sleggjudómaþátt eins og hann hefur þróast í vetur undir forustu þess stjórnanda.

Ég bendi á að hér var lagt fram frumvarp sem var keimlíkt því ákvæði sem er í 1. gr. af fyrrverandi formönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, sem ég tel að vel hefði mátt skoða við umfjöllun sérnefndarinnar í stjórnarskrármálum hvað þetta varðar. Það liggur fyrir að talsmaður Sjálfstæðisflokksins í þessum umræðum, hv. þm. Björn Bjarnason, hefur hvað eftir annað lýst því yfir að hægt eigi að vera að ná sátt um 2. gr. Ég var að lýsa því hér áðan að ég teldi að það frumvarp sem var lagt fyrir á sínum tíma væri að mörgu leyti heppilegra en það ákvæði sem hér um ræðir og það var það sem ég var að fjalla um.

Hv. þm. Atli Gíslason spyr um ákvæði 3. gr. Þar eru ýmsar nothæfar hugmyndir en það mál er bara svo illa rætt. Það vantar miklu víðtækari umræðu um það hvernig, eins og ég benti á í frumræðu minni, þjóðaratkvæðagreiðslum er háttað í Evrópu og hvaða vægi þær hafa. Það skiptir máli en það er algjörlega órætt hjá okkur og engin löggjöf um það atriði.