137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[17:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki enn á skýringum hæstv. fjármálaráðherra um hvers vegna ekki sé hægt að vinna þetta í bönkunum. Hann nefnir að um geti verið að ræða mál sem eru svo stór að bankarnir geti ekki leyst þau. Í bönkunum vinna mörg hundruð manna, þúsundir jafnvel, með reynslu af því að leysa slík mál. Svo segir hæstv. fjármálaráðherra að það sé allt í startholunum varðandi að koma á fót þessu eignaumsýslufélagi ef ske kynni að einhver mál yrðu of stór fyrir bankana. Hvað stendur þá til? Hvers lags rosalegt batterí ætla menn að setja af stað ef þetta stóra mál sem bankarnir ráða ekki við kemur upp? Á þá að ráða hundruð manna og leigja fyrir þá skrifstofu til að þeir geti leyst þetta stóra mál sem er of stórt fyrir bankana? Það hefur ekki verið útskýrt hvers vegna þarf að stofna þetta fyrirtæki, þetta eignaumsýslufélag, hvers vegna ekki sé hægt að leysa þetta í bönkunum. Þar af leiðandi er ekki nema von að menn spyrji og velti vöngum: Er ekki verið að þessu til að færa þetta nær stjórnmálunum? Vissulega verður þetta mjög nálægt ráðuneyti hæstv. fjármálaráðherra.

Fyrst það kemur í minn hlut að rifja upp spurningar sem ekki hefur verið svarað enn vil ég ítreka spurninguna um hvort hæstv. fjármálaráðherra geti nefnt fyrirtæki sem hann skilgreinir sem þjóðhagslega mikilvægt.