137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:35]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessi andsvör hæstv. ráðherra, við deilum ekki skoðunum. Láta á málið reyna? Það er einmitt það sem ég vil, með opinni lýðræðislegri umræðu. Ég sagði í ræðu minni að ég tel mig vita það 95% af reynslu annarra þjóða hvað er í boði. Ég tel að könnunarviðræður um stóru hagsmunina gætu leitt þetta aðeins betur í ljós þannig að við værum með 98% vissu. Þá vil ég leggja slíka spurningu fyrir þjóðina: Vill þjóðin sækja um? Það er grundvallarafstaða mín, að lýðræðið fái að ráða. Lýðræðið er dómarinn í þessu máli. Okkur greinir hér á um leiðir en stríðið er auðvitað allt eftir þegar þjóðin kemur að borði.

Að því er varðar grundvallarmun á Noregi vegna sameiginlegrar lögsögu eigum við sameiginlegra hagsmuna að gæta með Norðmönnum og fiskveiðiþjóðum Evrópusambandsins í svipuðum mæli og við ættum sameiginlega lögsögu. Þar á ég við deilistofnana sem við erum þó samningsaðilar að en verðum ekki.

Að því er varðar landbúnaðinn sérstaklega er matvælaöryggið fyrir mér algjört grundvallaratriði. Við búum hér við búfjárstofna sem eru einstakir, íslenskir búfjárstofnar, sauðfé, hestar, kýr, sem eru mjög næmir fyrir veirum erlendis, sem hafa ekki ónæmi eða mótefni fyrir þeim. Með því að fara inn með óheftan innflutning á hráu kjöti og öðru til Íslands stefnum við þjóðinni í stórfellda hættu. Það er ekki frá mér komið heldur vitna ég þar til okkar besta sýklafræðings, Margrétar Guðnadóttur, (Forseti hringir.) prófessors emerítus.