137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

flutningskostnaður á landsbyggðinni.

22. mál
[14:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Lækkun flutningskostnaðar hefur mikið verið rædd og mikið verið skoðuð. Ég vil vekja athygli á því að í tíð hæstv. samgönguráðherra Sturlu Böðvarssonar var á sínum tíma lögð fram skýrsla sem sýndi fram á að flutningskostnaðurinn væri sérstaklega íþyngjandi á þeim svæðum sem byggju við mjög lélegar vegasamgöngur. Þess vegna var það niðurstaða nefndar sem samgönguráðuneytið setti á laggirnar að nota ætti tiltekna upphæð til þess að greiða niður sérstaklega flutningskostnað til þeirra svæða sem byggju við mjög lélegar vegasamgöngur þar sem flutningskostnaður þar væri hlutfallslega meiri.

Það var tilefni þess á sínum tíma að sett var inn í fjárlögin 150 millj. kr. upphæð sem átti að vera fyrsta greiðsla til að koma til móts við þessi svæði sérstaklega. Ég er sammála hæstv. viðskiptaráðherra um að það eru auðvitað einhver takmörk fyrir því hvað menn geta gengið langt í slíkri niðurgreiðslu. En niðurgreiðsla á flutningskostnaði þar sem hann er sannarlega mestur eins og á þeim svæðum sem ég nefndi, og fer sem betur fer fækkandi með batnandi vegasamgöngum, er réttlætismál. Ég vil hvetja hæstv. viðskiptaráðherra til að skoða (Forseti hringir.) sérstaklega þennan þátt málsins.