137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

Icesave-samningarnir, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:14]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Virðulegi forseti, hv. þingmenn. Hér stöndum við sem þingmenn frammi fyrir þeirri ömurlegu staðreynd að ríkisstjórn Íslands hefur samið af sér með slíkum hætti að skömm er að og hér standa menn og karpa um fortíðina vegna þess að framtíðin hræðir þá einfaldlega. Fjórflokkurinn stendur hér eins og hann leggur sig og þeir kenna hverjir öðrum um. Þetta er skammarlegt.

Borgarahreyfingin, eins og þið hafið heyrt, mótmælir harðlega þeirri nálgun sem ríkisstjórnin notar við lausn þessarar Icesave-deilu vegna þriggja atriða.

Í fyrsta lagi er það mikið vafamál að Ísland sé yfir höfuð lagalega skuldbundið til þess að borga þessar innstæðutryggingar. Vegna ótta Evrópusambandsins við niðurstöðu dómstóla um það mál er einfaldlega hægt að ná miklu betri samningum ef betur er á málum haldið en gert hefur verið.

Í öðru lagi er það mikið vafamál að Íslandi sé fjárhagslega kleift að greiða allar þessar skuldir hvað svo sem hæstv. par Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon segja vegna þess að eignirnar sem eiga að koma á móti þessari skuld eru sennilega ekki til. Ef þær eru til þá eru þær alla vega það lélegar að Bretar vilja ekki taka við þeim. Því mun þessi skuld sennilega leggjast með fullum þunga, nærri 800–900 milljarðar með áföllnum vöxtum, á saklausa Íslendinga sem hafa ekkert til saka unnið.

Í þriðja lagi er hægt að leiða þetta mál til lykta með þeirri aðferð sem Borgarahreyfingin hefur alltaf lagt til. Ríkisstjórnin þarf að lýsa því yfir sem umheimurinn hvort eð er veit að hér hafi verið um eina allsherjarsvikamyllu að ræða sem við ráðum hvorki við að leysa né borga, í framhaldinu verði leitað til nágrannaþjóðanna og þær einfaldlega beðnar um aðstoð og þeim afhent öll gögn sem til eru um þá sem stóðu að baki þessari svikamyllu, nöfn þeirra og heimilisföng hérlendis sem erlendis, öll viðskiptatengsl og öll gögn úr öllum þeim fjármálakerfum sem hægt er að ná í, þeim verði og gerð réttarstaða grunaðra og allar eigur þeirra frystar samstundis. Með viðeigandi aðstoð eftirlitsstofnana nágrannaþjóða, svo sem lögreglu, fjármálaeftirlita og leyniþjónustu verður hægt með trúverðugum hætti að freista þess að ná til baka einhverju af því fé sem þessir menn stálu. Eigendum þessa fjár verði svo afhent það að fullu allt saman. Ef næst í meira en fyrir innstæðutryggingunum þá er það bara fínt. Þetta eru þeirra peningar hvort eð er. Það sem upp á vantar verður svo einfaldlega sótt beint til þeirra sem sök eiga á. Það er réttlæti og við viljum réttlæti.

Hér er um að ræða hundruð milljarða sem meðal annars runnu út úr Seðlabanka Íslands skömmu fyrir hrunið, töpuðust og lenda beint á skattgreiðendum þessa lands. Í framhaldinu viðurkennir þá ríkisstjórnin einfaldlega greiðslufall ef með þarf vegna þeirra skulda sem eftir eru og óskar eftir neyðaraðstoð frá Norðurlöndunum. Slík neyðaraðstoð verður að sjálfsögðu bundin því að hér fari fram gagnger uppstokkun alls stjórnkerfisins og stjórnsýslunnar og er það vel því að ekki veitir af. Ef hér er haldið rétt á spilunum má afþakka svokallaða aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og færa hagstjórnina aftur til íslenskra stjórnvalda.

Ef þetta verður ekki gert og þessi svokallaði samningur um Icesave látinn standa mun almenningur sligast undan lána- og skattbyrðinni. Mennta- og heilbrigðiskerfið mun leggjast á hliðina og hér verður alvarlegur landflótti. Hér mun ríkisstjórnin einfaldlega reka rýting í bak þjóðarinnar og binda á hana skuldaklafa sem hún sjálf á engan þátt í að búa til.

Við skulum muna að þessir 635 milljarðar fyrir Breta jafngilda hlutfallslega 300 milljónum króna fyrir Íslendinga. Hér á að fara að eyðileggja samfélagið fyrir einhverjar breskar stöðumælasektir. Það er spurning hvort nokkur þjóð í veraldarsögunni hafi leikið sjálfa sig eins grátt og sú íslenska en sú barnalega trú að bankar væru góðir og að hæstv. Jóhanna Sigurðardóttir væri að einhverju leyti heilög og eingöngu til góðra verka er nú heldur betur orðin dýrkeypt. Það má þó segja þjóðinni og mér til varnar að slík athöfn sem þau hæstv. Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa framið með þessari skuldbindingu var fjarri, órafjarri öllum mínum hugmyndum um þau.

Virðulegi forseti. Það er orðið þjóðinni dýrkeypt þetta daður Samfylkingarinnar við Evrópusambandið. Sem annar tveggja flokka í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki blekkti Samfylkingin þjóðina og laug að henni og umheiminum í átta mánuði á meðan hún beið og vonaði að þetta mundi nú kannski reddast. Af þeim sökum varð hér algjört efnahagshrun, miklu mun verra en ella hefði orðið ef Samfylkingin hefði sagt þjóðinni satt.

Um Sjálfstæðisflokkinn í því máli þarf ekki að fjölyrða. Ég er enn þá hissa að þingmenn hans skuli voga sér að sitja hér í þingsal. En þeir um það. Í þeirri ríkisstjórn voru meðal annars hæstv. Jóhanna Sigurðardóttir, Kristján Möller og Össur Skarphéðinsson sem öll sitja hér eða ættu að sitja hér skammt fyrir aftan mig. (Gripið fram í.) Ekki Jóhanna, hæstv. Jóhanna, afsakið.

Þó nokkrir af þeim samfylkingarþingmönnum sem studdu þáverandi ríkisstjórn eru hér einnig enn þá. Þá brá við að kjarkaðir flokksmenn Samfylkingar sögðu hingað og ekki lengra og kröfðust breytinga. Ríkisstjórnin féll og kosningar voru boðaðar.

Í kosningaloforðum þeirra flokka sem nú mynda þessa ríkisstjórn var hvergi minnst á þann skuldaklafa sem þessir flokkar hafa nú lagt fram. Í málefnasamningi þessarar ríkisstjórnar er hvergi heldur minnst á þann firrta skuldaklafa sem hún hefur nú lagt á þjóðina og svo eru hafðar uppi hreinar blekkingar um eignir á móti, en eignirnar á móti fást ekki gefnar upp. Í mínum huga er þetta einfaldlega skýrt merki um að þessi ríkisstjórn starfi af óheilindum og sé óheiðarleg, nákvæmlega eins og fyrri ríkisstjórn.

Hér erum við því komin með ríkisstjórn sem hefur valdið þjóð og samfélagi ómældum skaða, skaða sem mun segja til sín næstu áratugi þegar samfélagið Ísland molnar í sundur fyrir framan augum okkar. Þegar er byrjað að höggva í grunnskólana. Svo koma framhalds- og háskólarnir í haust og aldraðir og sjúkir munu deyja í auknum mæli. Vegakerfið mun drabbast niður og auka slysatíðni. Orku- og fjarskiptanetin munu einnig gefa sig og mengun og óþrifnaður mun aukast vegna þess að allir fjármunirnir fara í að greiða vexti.

Það sem er þó verst, virðulegi forseti, alverst er að samfélagssáttmálinn, sáttmálinn sem gerir Íslendingum kleift að búa að mestu í sátt og samlyndi í einhverju friðsamasta ríki heims mun rofna og hér munu glæpir og önnur óöld stóraukast í kjölfar þeirrar fátæktar sem nú stefnir í.

Á þessu þingi sitja nú 27 nýir þingmenn úr öllum flokkum, kosnir sem nýtt fólk með nýjar áherslur, aðrar áherslur en lygaáherslur og blekkingar fyrri ríkisstjórna. Þessa hv. þingmenn vil ég nú spyrja alla, hvern og einn: Hvernig líður ykkur? Vel, illa? Er þetta kannski ekki það sem var búist við? Og hvað þá? Hvað á það að gera? Á bara að halda áfram? Á að halda áfram af því að flokkurinn segir það, halda áfram þótt vitað sé að ráðherrar þessarar ríkisstjórnar ráði ekki við vandann, halda bara áfram einu sinni enn?

Þetta gerðu þingmenn síðasta þings of lengi, allt of lengi, þjóðinni til hörmungar. Nú er kominn tími til að breyta. Hvað ber að gera, var einu sinni spurt í kjölfar áratuga blekkinga og lyga þar sem hlutskipti almennings var fyrir borð borið og pólitísk yfirstétt gaf skít í fólkið. Hljómar þetta nokkuð kunnuglega? Þá eins og nú hefði verið hægt að laga vandamálið ef þeir sem höfðu áhrif hefðu látið heiðarleikann ráða, hefðu látið hjartað ráða en ekki einhverjar ímyndaðar hugmyndir um að svona væri bara pólitíkin og ekkert við því að gera.

Hv. þingmenn, þingmenn Vinstri grænna, þingmenn Samfylkingar, í þessu máli er komið að því að láta hjartað ráða. Vonandi hafið þið kjark til þess.