137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

framlagning mála ríkisstjórnarinnar, dagskrá þingsins o.fl.

[15:48]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er eiginlega einmitt sú staðreynd að dagskrá þingsins, starfsáætlun þingsins liggur frammi á heimasíðunni og að hún stangast svo mjög á við það sem er að gerast í þingsalnum sem ég kem upp og spyr út í það hvernig forseti sjái þinghaldið þróast á næstu dögum. Ég vil leyfa mér að lýsa þeirri skoðun minni, það eru nokkur stór mál í nefndum sem geta haldið þar áfram og nefndirnar ættu að geta starfað þrátt fyrir að þingið væri að störfum, að það er ekkert sem útilokar það að við gerum hlé á þingfundum á meðan engin koma málin sem boðuð hafa verið um launalækkanir og skattahækkanir meðal annars og nefndir starfi bara áfram á meðan og þegar ríkisstjórnin er tilbúin með þessi stóru mál verði boðað til þingfundar. Og ég vil ítreka mikilvægi þess eins og ávallt að þingmenn hafi einhverja lágmarksvitneskju (Forseti hringir.) um það hvernig störfum þeirra verði háttað næstu daga og vikur. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)