137. löggjafarþing — 25. fundur,  26. júní 2009.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að sannarlega hefur náðst mikilvægur áfangi núna. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér þykja aðilar vinnumarkaðarins hafa sýnt ekki bara mikla ábyrgð við þessar erfiðu aðstæður sem eru uppi núna heldur kannski ekki síður sýnt ríkisstjórninni alveg ótrúlega mikið langlundargeð vegna þess að öll stóru málin sem þrýst hefur verið á í vikur og mánuði að ætti að vera lokið á þessum tímapunkti eru enn þá óuppgerð.

Við skulum t.d. taka vextina. Er það ekki svo að aðilar vinnumarkaðarins hafa allt þetta ár kallað eftir því að ríkisstjórnin gripi til aðgerða sem sköpuðu svigrúm fyrir vexti til að lækka niður fyrir 10%? En hver eru skilaboðin frá ríkisstjórninni og um hvað snýst stöðugleikinn? Hann snýst kannski um þetta: Skattar halda áfram að hækka og krónan helst veik. Er það stöðugleikinn sem verið er að tryggja með þessum samningi? Maður spyr sig að því.

Það kemur fram í sáttmálanum að menn hafi lagt upp með það að krónan ætti að hafa nálgast jafnvægisgengi sitt í lok ársins 2010 og að vaxtamunur við evrusvæðið yrði ekki nema 4%. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég hef enga trú á þessari ríkisstjórn til að ná þeim markmiðum. Ég hef enga trú á því að stöðugleikanum verði náð á þeim tíma og mér sýnist að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki heldur neina trú á því. Vegna þess að þetta eru skilaboðin sem koma frá hæstv. forsætisráðherra, krónan verður áfram veik. Og ef ríkisstjórnin heldur áfram eins og hún hefur gert hingað til, þ.e. að draga lappirnar í því að ná niður hallanum á ríkissjóði, og ef henni dettur ekkert annað í hug en að hækka skatta, ekkert annað til að auka tekjur ríkisins en að hækka skatta, verður sáttmálinn um þann stöðugleika afskaplega skammvinnur.