137. löggjafarþing — 32. fundur,  1. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[14:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. viðskiptanefndar um 85. mál. Nefndarálitið er að finna á þskj. 205 og breytingartillögur á þskj. 206 í fimm tölusettum liðum.

Ég vil í upphafi geta þess að nefndin fékk þetta mál til umfjöllunar 9. júní sl. og hefur fjallað um það á sjö fundum, hefur fengið upp undir tvo tugi gesta og ein 16 skrifleg álit.

Megintilgangur þessa frumvarps, yfirlýstur tilgangur, er að auðvelda sparisjóðunum að afla sér nýs stofnfjár, m.a. frá ríkissjóði á grundvelli heimilda í 2. gr. neyðarlaganna, nr. 125/2008, en nauðsynlegt er talið að veita lagaheimild til þess að lækka núverandi stofnfé til að mætt verði taprekstri síðustu ára og á þann hátt gert mögulegt að jafna varasjóð sparisjóðsins. Um þetta fjallar 7. gr. þessa frumvarps sem var eðlilega sú sem mest var um rætt í nefndinni og í þeim umsögnum sem til hennar bárust.

Það er talið ólíklegt að nýir aðilar hafi hug á því að leggja fram nýtt stofnfé við óbreyttar aðstæður, þegar sú staðreynd blasir við að víða er varasjóður sparisjóðsins uppurinn og jafnvel orðinn neikvæður, þ.e. að bókfært stofnfé er orðið hærra en annað eigið fé.

Það er ljóst að sparisjóðirnir fóru ekki varhluta af bankahruninu sl. haust og þá varð strax ljóst og reyndar mörgum fyrir þann tíma, að sparisjóðirnir voru í miklum kröggum. Neyðarlögin tóku því einnig til sparisjóðanna eins og ég nefndi áðan, í 2. gr., þar sem veitt er heimild til þess að ríkið komi inn með því að leggja allt að 20% eigið fé í sjóðina til þess að endurreisa þá. Í kjölfar neyðarlaganna hófst undirbúningur að því að ríkið endurfjármagnaði sparisjóðina á þeim grunni sem 2. gr. neyðarlaganna segir til um og tilgangurinn var, eins og núna, að endurreisa, viðhalda og treysta sparisjóðakerfið í landinu. Það voru settar reglur um þessa aðkomu ríkisins 18. desember 2008 en þær hafa ekki enn náð tilætluðum árangri. Því er talið nauðsynlegt að breyta nú lögum um sparisjóði, þ.e. VIII. kaflanum í lögunum um fjármálafyrirtæki sem fjallar um sparisjóði, eins og frumvarpið gerði ráð fyrir.

Það er rétt að geta þess hér að staða sparisjóðanna í árslok sl., 2008, reyndist jafnvel enn verri en talið hafði verið og það sem af er þessu ári hefur einn af stærstu sjóðunum, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, farið í slitameðferð.

Í upphafi máls míns vil ég nefna þá hagsmuni sem hér um ræðir fjárhagslega fyrir ríkið, ég mun koma að hinum samfélagslegu hagsmunum og hagsmunum þess að halda uppi fjölbreyttum fjármálamarkaði síðar í máli mínu. Vert er að hafa í huga að í sparisjóðum voru um síðustu áramót 248 milljarðar kr. í innlánum og er þá ekki talið það sem var í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis sem, eins og ég sagði áðan er kominn í slitameðferð, og heldur ekki það fé sem var í Sparisjóði Mýrasýslu, sem komið er inn í Nýja Kaupþing. 248 milljarðar er það fé sem ríkissjóður hefur ábyrgst að standa skil á, verja innlán samkvæmt neyðarlögunum, og því er mikið í húfi að vel takist til og að sparisjóðakerfið lifi þessar hremmingar af þannig að innlánin megi vera trygg og ávaxtast.

Eins og ég sagði áðan er nefndarálit meiri hluta viðskiptanefndar að finna á þskj. 205. Í öðrum kafla þess á bls. 2 er fjallað um félagaform sparisjóða en í 2. gr. frumvarpsins er að finna skýr skilgreiningu á því hvað sparisjóður sé. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sparisjóður er sjálfseignarstofnun sem starfar sem fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum þessum.“

Í þessari grein er enn fremur skýrt fram tekið að stofnfjáreigendur eigi ekki hlutdeild í öðru eigin fé sparisjóðsins en bókfærðu stofnfé og að þeir beri ekki fremur en fyrr, miðað við núgildandi lög, ábyrgð á skuldbindingum sparisjóðsins umfram stofnfé sitt. Í núgildandi lögum, 63. gr., er að finna samsvarandi ákvæði en þar segir reyndar að stofnfjáreigendur beri ekki persónulega ábyrgð á skuldbindingum sparisjóðsins umfram eigið stofnfé. Í þessari grein er einnig tekið fram að um sparisjóði gildi lög um fjármálafyrirtæki og lög um hlutafélög þegar þeim sleppir eftir því sem við á.

Með þessu frumvarpi er tekin úr lögum heimild til þess að breyta sparisjóðum í hlutafélög. En í 4. mgr. 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að sparisjóður sem starfar sem hlutafélag við gildistöku laganna, verði þetta frumvarp að lögum, geti notað heitið „sparisjóður“ í firmanafni sínu. Meiri hlutinn leggur til að þetta ákvæði verði fellt brott þannig að þeim sparisjóðum sem hefur verið breytt í hlutafélög verði það ekki heimilt. Ástæðan er sú að meiri hlutinn telur það villandi fyrir neytendur að fjármálastofnun sem hefur horfið frá þeim grunnþáttum sem lagðir eru í hugtakið sparisjóður noti samt heitið eftir sem áður í firmanafni sínu. Leggur meiri hlutinn því til að 4. mgr. 2. gr. falli brott.

Þá leggur meiri hlutinn einnig til breytingar á 1. mgr. 2. gr. í þá veru að undanskilja einnig ríkissjóð reglum um lágmarksfjölda stofnfjáreigenda, en ákvæði um að 30 stofnfjáreigendur skuli til að stofna sparisjóð er að finna í þeirri grein. Undantekningar eru sem sagt sveitarfélög, undanþegnir eru sparisjóðir sem eru í eigu annars sparisjóðs eða meirihlutaeigu eins eða fleiri sveitarfélaga og við leggjum til að það verði einnig hvað varðar ríkissjóð. En ákvæði sem fyrir voru í lögunum um sveitarfélagasparisjóði eru með frumvarpi þessu tekin úr lögunum.

Það hefur nokkuð verið rætt um að staða sparisjóðanna, félagsréttarlega, sé ekki skýr en meiri hlutinn telur að með 1. mgr. 2. gr. og því sem þar á eftir kemur sé þetta skýrt og bendir á í nefndaráliti að þegar sett voru lög um sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri á 123. löggjafarþingi, 135. mál, var hugtakið sjálfseignarstofnun ekki skilgreint sérstaklega. Í því frumvarpi var í greinargerð látið nægja að vísa til sameiginlegra einkenna þeirra, svo sem að hafa tiltekið stofnfé, ráða yfir fjármagni, starfa samkvæmt sérstökum samþykktum og hafa skipaða stjórn sem starfi sjálfstætt. Er meiri hlutinn, eins og ég sagði áðan, sáttur við að hér sé tekið af skarið hvað varðar félagaformið.

Það er nýmæli í þessu frumvarpi að hér er í fyrsta sinn kveðið á um samfélagslegt hlutverk sparisjóða og áskilið að í stofnsamþykktum skuli um það fjallað og þar tekið fram hverjar eru helstu áherslur sparisjóðs varðandi samfélagslegt hlutverk hans. Meiri hlutinn gerir engar breytingartillögur við þetta, ég nefndi þetta einungis hér til þess að árétta það nýmæli sem þarna er að finna.

Í 6. gr. frumvarpsins er framsal og önnur ráðstöfun stofnfjárhlutar í sparisjóði heimil án takmarkana þannig að það má selja stofnhluti í sparisjóði. Ef þeir eru seldir umfram nafnverð ber að setja yfirverðið sem þar með fæst í sérstakan yfirverðsreikning sem telst með óráðstöfuðu eigin fé sparisjóðs. Þetta er annað nýmæli og ég get þessa aðeins hér, það er ekki þannig að gerðar séu breytingartillögur við þetta.

En það er 7. gr., eins og ég nefndi áðan, sem fékk mesta umfjöllun í nefndinni, en þar er mælt fyrir um heimild til þess að færa niður stofnfé. Þetta ákvæði er nýmæli og það er rétt að árétta að það er ekki skylt að færa niður stofnfé, í ákvæðinu felst aðeins heimild til slíkrar niðurfærslu. Það verður að telja mikilvægt að stofnfjáreigendur ráði yfir slíkri heimild til þess að geta brugðist við ef bókfært stofnfé verður hærra en eigið fé. Samkvæmt greininni er eingöngu heimilt að lækka stofnfé til að lækka tap sem verður ekki jafnað á annan hátt og er þar með óheimilt að lækka stofnfé af öðrum ástæðum svo sem að það er óheimilt að endurgreiða eða greiða stofnfé út til stofnfjáreigenda, innleysa það með þeim hætti. — En eins og ég sagði, samkvæmt 6. gr. er heimilt að selja stofnfjárhlut án takmarkana.

Sparisjóðirnir, eins og ég sagði áðan, fóru ekki varhluta af bankahruninu og í 2. gr. neyðarlaganna er mælt fyrir um heimild fjármálaráðherra til að leggja sparisjóði til fjárhæð sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé hans miðað við árslok 2007. Hér mun vera um ríflega 21 milljarð kr. að ræða, 21,5 milljarð kr. ef ég veit rétt.

Í neyðarlögunum er reiknað með því að ríkissjóður fái stofnfjárbréf eða hlutabréf í sparisjóðnum — því þetta ákvæði tekur jafnt til bæði hlutafélagasparisjóða og stofnfjársparisjóða — að ríkissjóður fái stofnfjárbréf eða hlutabréf í sparisjóðnum sem endurgjald í samræmi við eiginfjárframlag sitt. Fjárhæð útgefinna stofnfjárhluta til ríkissjóðs skuli nema að nafnvirði sömu upphæð og það fjárframlag sem innt er af hendi og skal það stofnfé njóta sömu stöðu og aðrir stofnfjárhlutir í viðkomandi sjóði.

Ég vil vekja athygli á því sem segir í 5. málslið 2. gr. neyðarlaganna:

„Þegar um er að ræða sparisjóð sem breytt hefur verið í hlutafélag samkvæmt ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki skal hið nýja hlutafé nema sama hlutfalli gagnvart öðru útgefnu hlutafé og fjárframlagið er í hlutfalli við bókfært eigið fé félagsins. Ákvæði þetta tekur jöfnum höndum til stofnfjársparisjóða og þeirra sparisjóða sem breytt hefur verið í hlutafélag samkvæmt ákvæðum laga þessara eftir því sem við á.“

Í neyðarlögunum er því gert ráð fyrir því að stofnfé sjóðanna verði fært að raunvirði. Með frumvarpi þessu er í rauninni verið að útfæra texta neyðarlaganna betur og skýra hann umfram það sem gert var í reglum um framlag til sparisjóða frá 18. desember 2008 sem settar voru á grundvelli þessarar greinar.

Ég rakti það áðan að afkoma sparisjóðanna hefur síst batnað frá því að neyðarlögin voru sett. Fjármálaeftirlitið hefur tekið yfir sparisjóði og í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram að a.m.k. tveir hafi sótt um framlag úr ríkissjóði á grundvelli laga nr. 125/2008 en nýrri upplýsingar sem ég hef eru að þeir muni vera í það minnsta sex talsins.

Staða sparisjóðanna er því erfið og margir hafa þörf fyrir að auka stofnfé sitt til þess að styrkja eiginfjárgrundvöll og rekstrarhæfi, hvort sem nýtt stofnfé kæmi þá frá ríkinu, sveitarfélögum eða öðrum aðilum sem vildu styrkja rekstur þeirra. Það verður ekki fram hjá því horft að margir sparisjóðir hafa á síðustu árum hækkað stofnfé sitt og greitt stofnfjáreigendum ríflegan arð og í þeim tilfellum hefur verið gengið á varasjóði sparisjóðanna. Vegna taprekstrar á síðasta ári og þessara arðgreiðslna er nú svo komið að varasjóðir margra sparisjóða eru uppurnir og jafnvel orðnir neikvæðir, og við þær aðstæður, eins og ég sagði áðan, verður að telja ólíklegt að nýir aðilar séu tilbúnir til þess að leggja fram stofnfé. Auk þess má gera ráð fyrir því að skilyrði fyrir fjárframlagi ríkisins, skv. 2. gr. neyðarlaganna, sé að varasjóður sé ekki neikvæður.

Eitt af markmiðum þeirra breytinga sem lagðar eru til í lögum um fjármálafyrirtæki með þessu frumvarpi er að auðvelda sparisjóðunum að sækja sér nýtt stofnfé. Til þess að þeir geti það er nauðsynlegt að þeir geti lækkað núverandi stofnfé til þess að mæta taprekstrinum. Með þeirri aðgerð, að lækka stofnfé, væru stofnfjáreigendur að taka á sig tap sparisjóðsins frá síðasta ári að því leyti sem það er umfram varasjóð. Miðað við gildandi löggjöf um sparisjóði er ekki talin heimild til að lækka stofnfé og því er í frumvarpinu ákvæði sem veitir stjórn sparisjóðsins heimild til þess í 7. gr.

Þess misskilnings hefur gætt að þessu ákvæði yrði beitt á þann veg að stofnfé yrði skrifað niður á einu bretti í öllum sparisjóðum á landinu, jafnvel niður úr öllu valdi, niður í núll. Alla vega höfum við heyrt þann misskilning hjá gestum sem komu fyrir nefndina, að menn töldu að það ætti að skera jafnt niður, færa stofnféð jafnt niður í öllum sjóðunum. Þetta er eins og ég nefndi misskilningur, samkvæmt þeim upplýsingum sem nefndin aflaði sér hjá fjármálaráðuneytinu sem fer með samningaviðræður við sparisjóðina um aðkomu að þeim á grunni neyðarlaganna.

Það er mikilvægt að stofnfjáraukning sparisjóðanna fylgi almennum jafnræðisreglum og útfærslan sem mælt er fyrir í frumvarpinu tekur, eins og ég hef margítrekað, mið af því að komi fé úr ríkissjóði inn í sparisjóðinn verði að lækka stofnfé í sjóðunum. Fyrir nefndinni kom fram að framkvæmdin yrði á þann veg í þeim tilfellum þar sem framlag ríkisins dugir til að koma eiginfjárhlutfalli sparisjóðs upp fyrir 12%, að þá ráðist vægi eldra stofnfjár og nýs stofnfjár að nafnverði eigin fjár sem fyrir er ásamt síðan niðurstöðum áreiðanleikakönnunar og nýs stofnfjár en í þeim tilvikum að framlag frá ríkissjóði dugar ekki til að koma eiginfjárhlutfalli sparisjóðs upp fyrir 12% þarf að grípa til frekari ráðstafana sem felast m.a. í því að fjölga stofnfjáraðilum þ.e. fá aðra, fá nýja stofnfjáraðila auk ríkisins inn í sjóðinn. Einnig að kröfuhafar afskrifi skuldir, þeir lengi í lánum og breyti lánum í víkjanleg lán eða stofnfé og að stofnfé sé lækkað. Í slíkum samningum koma margir að borðinu og þá yrði lækkun stofnfjár byggð á viðskiptalegum forsendum þar sem allir sem að þessum samningum koma þurfa að vera samþykkir þeim aðgerðum sem gripið er til til að bjarga viðkomandi sparisjóði.

Ég vil geta þess í þessu sambandi að ríkissjóður mun eiga kröfu upp á um 12,5 milljarða kr. á sparisjóðina vegna endurhverfra viðskipta þeirra við Seðlabanka Íslands. Fyrir nefndinni kom fram að þessar kröfur væru hluti af lausninni á vanda sparisjóðanna með þeim hætti að ýmist væri hugsanlegt að þessum kröfum gæti verið breytt í stofnfé eða þeim yrði breytt í lán á sama grunni og kröfum ríkissjóðs á VBS og Saga Capital fyrr í vetur var breytt í lán.

Það sem ég er að leggja áherslu á er að staða hvers sparisjóðs fyrir sig verði metin. Það er mikilvægt að það verði gert og að það er því misskilningur að fyrirhugað sé að skrifa stofnfé í öllum sparisjóðum í landinu niður í eitthvert tiltekið hlutfall. Það kom einnig fram fyrir nefndinni að það er ekki ætlunin að skrifa stofnfé niður í núll, afskrifa það algerlega, og ráðuneytið telur, eins og reyndar kemur síðar fram í nefndaráliti meiri hlutans, að það séu fólgin verðmæti, eiginleg verðmæti í því að núverandi stofnfjáreigendur í sparisjóðunum verði áfram viðskiptamenn og stofnfjáreigendum í sjóðunum.

Í nefndarálitinu er í þessu sambandi hvað varðar lækkun stofnfjár vísað til umsagnar Sambands íslenskra sparisjóða en þar segir, með leyfi forseta:

„Við gerum ráð fyrir að í þeirri fjárhagslegu endurskipulagningu og aðkomu ríkisins sem er fram undan hjá sparisjóðunum muni vera nauðsynlegt að lækka stofnfé.“

Meiri hlutinn leggur til breytingartillögu við umrædda 7. gr. að því er varðar reglur um fundarboðun. Þetta er smáatriði sem ég vil þó geta en við töldum rétt að reglur um fundarboðun þegar á að lækka stofnfé væru sambærilegar þeim sem eru í 6. gr. frumvarpsins um boðun funda þegar á að fækka stofnfé. Ég hygg að flestir geti verið sammála um þetta, að boðunarfresturinn verði tvær vikur.

8. gr. frumvarpsins fjallar um ráðstöfun hagnaðar. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir því að 50% af hagnaði yrði læst inni í sparisjóðunum sem varasjóður til að mæta hugsanlegu tapi í framtíðinni en síðan var gert ráð fyrir að aðeins yrði heimilt að greiða arð þegar hagnaður hefði verið á rekstri sparisjóðsins í 5 ár. Meiri hlutinn leggur til þá breytingu að ráðstöfun arðs verði ekki miðuð við hagnað síðustu 5 ára og enn fremur að arðgreiðslan verði ekki takmörkuð við meðaltal hæstu almennra innlánsvaxta auk 8 prósentustiga eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Meiri hlutinn telur að svo þröngar heimildir til greiðslu arðs geti komið í veg fyrir að nýtt stofnfé komi inn í sparisjóðina en meiri hlutinn telur mikilvægt að svo verði. Því eru lagðar til breytingar í þessa veru á þskj. 206. En ég vil vekja athygli á því að eftir stendur óbreytt, þegar búið er að fella niður að það megi ekki greiða út arð, þ.e. búið að fella niður þessa 5 ára kröfu og almennu sparisjóðavaxtakröfuna auk álags, það nýmæli sem er í þessum lögum sem nauðsynlegt er talið að ekki geti komið til arðgreiðslna úr sparisjóði þar sem varasjóður er neikvæður. Það er mjög mikilvægt atriði í okkar huga.

Markmið þeirra breytinga sem meiri hlutinn leggur til á 8. gr. eru að auka möguleika á því að nýtt stofnfé komi inn í sparisjóði, þ.e. að það verði talinn vænlegur fjárfestingarkostur að leggja fé inn í sparisjóði. Við teljum að með því að fella brott þær hömlur sem ég nefndi felist hvati til þess að gerast stofnfjáreigandi. Í nefndarálitinu neðst á bls. 4 er vikið að því sem ég nefndi áðan, að það sé mikilvægt að eigendur stofnfjár komi komi að endurreisn sjóðanna enda felist mikilvægir viðskiptalegir hagsmunir í því að tryggja áframhaldandi viðskipti þeirra og hlutverk þeirra í endurreisn sjóðanna.

Í 9. gr. er fjallað um samstarf sparisjóða en nokkrar deilur hafa staðið milli Samkeppniseftirlitsins og sparisjóðanna um það. Það er hefð fyrir slíku samstarfi og ljóst að sparisjóðirnir leggja mikla áherslu á að kveðið verði skýrt á um slíkar heimildir í lögum til að auðvelda sparisjóðunum þátttöku í samkeppni við stærri fyrirtæki á fjármálamarkað. En í 1. mgr. 9. gr. er áréttað að slíkt samstarf skuli fara fram á almennum viðskiptalegum forsendum.

Í nefndaráliti meiri hlutans er vakin athygli á því að sparisjóðir eru af öðru tagi en viðskiptabankar og til að geta keppt við þá er mikilvægt að þeir geti unnið saman að verkefnum sem ekki snúast beint um samskiptin við viðskiptavini. Við vísum til umsagnar Seðlabanka Íslands um að 9. gr. frumvarpsins sé til þess fallin að styrkja rekstrargrundvöll sparisjóðanna.

Við leggjum til þrenns konar breytingar á þessu ákvæði. Í fyrsta lagi er lagt til að við 1. mgr. bætist orðin „meðal annars“ í því skyni að veita svigrúm til þess að fleira falli undir greinina en orðalag hennar gefur til kynna, þ.e. að upptalning verkefna í 1. mgr. verði ekki tæmandi eins og getið er í athugasemdum með ákvæðinu. Í öðru lagi er lagt til í tillögum Sambands sparisjóða, að „greining“ bætist við upptalningu í e-lið 1. mgr. Í þriðja lagi er lagt til breytt heiti greinarinnar. Lagt er til að hún beri fyrirsögnina „Samstarf sparisjóða“ og vegna þessa eru lagðar til orðalagsbreytingar á 2. mgr.

Frú forseti. Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi sparisjóðanna sem hluta af fjármálaumhverfinu hér á landi. Við teljum að verði þetta frumvarp og þær breytingar sem ég hef mælt fyrir að lögum hafi verið vörðuð leið til að nýta heimildir ríkissjóðs til endurfjármögnunar sparisjóða samkvæmt neyðarlögunum og búið í haginn fyrir það að vænlegt þyki að gerast stofnfjáreigandi sparisjóðs og vonast meiri hlutinn til að nýtt stofnfé komi inn í sparisjóðina annars staðar en úr ríkissjóði.

Við því var hreyft, frú forseti, við meðferð málsins í nefndinni að borið hefði á því að það skorti gagnsæi í sparisjóðaumhverfinu, t.d. um það hverjum gæfist kostur á að gerast stofnfjáreigendur. Meiri hlutinn bendir á þrennt í frumvarpinu sem kemur til móts við slíkar athugasemdir. Í fyrsta lagi er í 2. mgr. 4. gr. ákvæði um að færð skuli skrá yfir stofnfjáreigendur sem skal aðgengileg öllum en í núgildandi lögum er slík skrá aðeins aðgengileg stofnfjáreigendum. Í öðru lagi er í 3. mgr. 6. gr., eins og ég nefndi fyrr, mælt fyrir um heimild til að framselja stofnfjárhluti í sparisjóði án takmarkana.

Í þriðja lagi er mælt fyrir um að sparisjóðir setji sér reglur um viðskipti með stofnfé, samkvæmt 6. gr., og skal Fjármálaeftirlitið staðfesta þær. Reikna verður með að í slíkum reglum verði tryggt jafnræði þannig að allir sem þess óska geti keypt stofnfé.

Frú forseti. Auk þeirra breytingartillagna sem fjallað er um í nefndaráliti vil ég geta tveggja til viðbótar. Það er liður 1 og 2 í breytingartillögum á þskj. 206 en það láðist að setja skýringar um þær í nefndarálitið. Skýringarnar eru sem hér segir, frú forseti. Til viðbótar við þær breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar sem getið er um í áliti meiri hlutans eru lagðar til breytingar á 4. mgr. 28. gr. og 8. tölul. 1. mgr. 42. gr. laganna vegna ákvæða sem falla brott samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Þetta er smáhreingerning.

Frú forseti. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um hér. Þegar þetta mál var lagt fyrir þingið var talið brýnt að málið yrði afgreitt fyrir 1. júlí, sem er í dag, til að fyrirgreiðsla ríkissjóðs mætti ná inn á fyrri helming ársins í árshlutauppgjöri sparisjóðanna. Það náðist því miður ekki en ég vil taka fram að engu að síður er mikilvægt að það dragist ekki mikið lengur að afgreiða þetta mál frá þinginu. Það er ekki ljóst eða víst að eiginfjárframlag frá ríkissjóði verði til að bjarga öllum sparisjóðunum en það er þó tilraunarinnar virði og eins og ég sagði áðan þá telur meiri hlutinn að með þessu frumvarpi og þeim breytingum sem við höfum gert sé vörðuð leið til þess að sparisjóðirnir geti verið öflugur hluti og þátttakandi í fjármálaumhverfi landsins um ókomna tíð og styrkt byggðir landsins. Það er alveg ljóst að sparisjóðirnir hafa gegnt þar mjög mikilvægu hlutverki. Þeir hafa gegnt mjög mikilvægu hlutverki í því að veita lán og fyrirgreiðslu gegn veðum sem viðskiptabankarnir hafa hreinlega ekki litið við. Það er hlutverk sem verður að hlúa að.