137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:28]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að öllum sé ljóst að skoðanir innan stjórnarflokkanna, um aðild að Evrópusambandinu, eru skiptar. En í samstarfsyfirlýsingu þessara flokka kemur líka skýrt fram atriði er varðar ákvörðun um aðild Íslands að Evrópusambandinu, hvernig að því skuli staðið o.s.frv. Það kemur því ekki á óvart að skoðanir séu skiptar og það komi fram í ræðustól, ég held að það sé alveg ljóst. Auðvitað er það svo að hver og einn þingmaður tekur afstöðu eftir sinni eigin samvisku þegar kemur að atkvæðagreiðslu í þessu stóra máli en hitt er engu að síður nokkuð sérstakt ef þingmenn innan stjórnarliðsins stilla sér saman með stjórnarandstöðuflokkunum um breytingartillögu, t.d. þá tillögu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett fram. En ég á enga aðild að því, virðulegi forseti, ef það er spurning hv. þingmanns, sem fram kom í morgun.