137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[11:42]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Frú forseti. Það frumvarp sem hér er til umfjöllunar felur í sér mikla réttarbót fyrir þá námsmenn sem þurfa að leita ásjár Lánasjóðs íslenskra námsmanna til að fjármagna framhaldsnám. Í gildandi lögum er kveðið á um að skilyrði sé fyrir afgreiðslu námslána að lánsþegar útvegi sér ábyrgðarmann, eða menn eftir atvikum, sem taki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins ásamt vöxtum og verðtryggingu. Þetta ákvæði hefur verið umdeilt árum saman enda má færa fyrir því gild rök að það mismuni námsmönnum þar sem þeir kunna að hafa afar misjafnan aðgang að bakhjörlum sem tilbúnir eru að taka á sig sjálfskuldarábyrgð á námslánum, ekki síst þegar illa árar í þjóðarbúskapnum eins og nú.

Neyðarbrauð þeirra námsmanna sem ekki hafa getað útvegað sér ábyrgðarmenn hefur verið að kaupa bankaábyrgð með tilheyrandi álögum í formi ábyrgðargjalds sem numið hefur 2,5% af lánsfjárhæð. Ábyrgðarmannakerfið hefur því í reynd vegið að því grundvallarhlutverki lánasjóðsins að tryggja námsmönnum jafnrétti til náms óháð efnahag.

Sú breyting sem hér er lögð til, afnám ábyrgðarmannakerfis af nýjum námslánum er tímanna tákn og verður vonandi einungis hin fyrsta af mörgum nauðsynlegum réttarbótum sem bæta munu þjónustu lánasjóðsins við námsmenn á komandi árum. Þar þarf sérstaklega að skoða, um leið og hagur vænkast í ríkisbúskapnum, að vinda ofan af hinu svokallaða eftirágreiðslukerfi sem hefur lagt auknar skuldabyrðar á herðar námsmanna frá því að LÍN var breytt árið 1992.

Sömuleiðis er mikilvægt að skoða framfærslugrunninn sjálfan en nú er grunnframfærsla námsmanns, eða sú fjárhæð sem námsmaður á rétt á án skerðingar, 100.600 kr. og er hún óbreytt frá fyrra námsári. Meginskýringin á því að námslán hækka ekki milli ára er þröng staða ríkissjóðs sem kallar á sparnað á öllum sviðum en ekki síður gríðarleg fjölgun lánþega sem setur mikinn þrýsting á sjóðinn um útgjaldaaukningu. Tölurnar tala sínu máli því lánþegum hefur fjölgað um ríflega 60% frá árinu 2003 og um tæplega 140% á síðustu 10 árum. Auðvitað er slæmt fyrir námsmenn að fá ekki hækkun á námslánum þegar verðbólga er enn í tveggja stafa tölu og skoða þarf allar leiðir til hækkunar svo fljótt sem aðstæður í þjóðarbúskapnum og ríkisfjármálum leyfa. Þar er rétt að skoða sérstaklega samhengi námslána og atvinnuleysisbóta því kerfið má ekki vera þannig að það sé fjárhagslegur hvati fyrir námsmenn að segja sig frá námi og fara á bætur. Þetta samhengi er til skoðunar hjá hæstv. ráðherrum menntamála og félagsmála.

En fleiri leiðir þarf að skoða til að hækka grunnframfærsluna og í því samhengi er ekki óeðlilegt að horft verði til þess að auka tekjutillit námslána, þ.e. að skerðingar verði auknar vegna sérstaklega hárra tekna, en athyglisvert er að þetta tekjutillit hefur lækkað mjög hratt á undanförnum árum, er nú aðeins 10% en var 50% í upphafi þessa áratugar.

Virðulegi forseti. Lánasjóður íslenskra námsmanna hvílir á sterkum grunni. Fjárhagsstaða hans er traust og það er gleðilegt að afskriftir af námslánum hafa verið í lágmarki undanfarin ár en samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóðnum hefur afskriftahlutfallið farið lækkandi allan þennan áratug, var 0,76% árið 2001 en var komið niður í 0,19% um síðustu áramót. Á sama tíma stendur afskriftasjóður lánasjóðsins vel. Um síðustu áramót voru í honum 15,5 milljarðar sem gerir hann vel búinn undir framtíðina og hugsanleg áföll tengd þrengingum í þjóðarbúskapnum. Lánasjóðurinn stendur traustum fótum um þessar mundir. Þetta er því heppileg tímasetning fyrir réttarbót af þessu tagi. Afnám ábyrgðarmannakerfisins mun leiðrétta mismunun í námslánakerfinu auk þess að létta af öllum þorra námsmanna verulegu óhagræði og sumum þeirra hreinum fjárútlátum í formi ábyrgðargjalds í bönkum.