138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

mögulegt lán frá Norðmönnum óháð AGS.

[11:46]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli mínu áðan hefði ég verið fyrst allra til þess að senda formlegt erindi til Norðmanna um að fá þetta lán án skilyrða ef ég hefði metið það raunhæft. Ég held að það þurfi ekki annað en vísa til þess sem hefur legið fyrir lengi að skilyrði fyrir norrænu lánunum eru bundin ákveðnum skilyrðum og tengjast endurskoðuninni á AGS-láninu. Þetta má sjá víða. Svar Stoltenbergs sannfærði mig um að þetta væri ekki raunhæft. Komi annað í ljós (Gripið fram í.) skal ég sannarlega standa með framsóknarmönnum um að senda formlegt erindi en það er bara ekki (Gripið fram í.) staðan í dag. Þegar menn eru í viðskiptum eða lánasamningum kanna þeir fyrst hver raunverulegi möguleikinn á því er og það er alveg ljóst eftir þá könnun sem ég gerði og fleiri reyndar að þetta er ekki fyrir hendi.

Það virðist vera ótæmandi brunnur svona töfralausna sem framsóknarmenn hafa í sínum poka. (SDG: Sem tekur ykkur hálft ár að skilja.) Eigum við að rifja upp 90% lánin? (SDG: Já.) Eigum við að rifja upp 20% afskriftirnar? (SDG: Já.) (Gripið fram í: Endilega.) sem hefðu sett heimilin á hausinn og ríkissjóð? (Gripið fram í: Afskriftir heimilanna.) Hefðu sett ríkissjóð á hausinn? (Gripið fram í.) Ég er líka að tala um (Gripið fram í.) þessi 2.000 milljarða kr. lán. Nú er alveg ljóst að lánið sem kemur frá Noregi er 90 milljarðar og það hefur tekið marga mánuði að fá það lán, sem er með skilyrðum. Að ætla sér síðan að við getum fengið 1.000–2.000 milljarða án skilyrða, (Gripið fram í: Það er ekki það sem við höfum sagt.) það sjá allir að það er ekki í boði. (Gripið fram í.) Það er alveg ljóst.

Varðandi AGS er alveg ljóst að við getum sjálf ráðið því hvort AGS er hér eða fer. Hann er ekki að pína upp á okkur þessum lánum. Við höfum ekki séð neinar aðrar betri lausnir fyrir Ísland en að vera í (Gripið fram í.) samstarfi við AGS og þar get ég vitnað í marga hagfræðinga (Forseti hringir.) sem hafa komið fram og sagt að það væri nauðsynlegt, a.m.k. um stund, að vera í samstarfi við AGS og fá þær lánalínur (Forseti hringir.) og lán sem Norðmenn og önnur Norðurlönd bjóða okkur.