138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það reyndar svo að það fyrsta sem Sjálfstæðisflokknum varð til eftir að áfallið dundi á í nóvember, desembermánuði sl. var að hækka skatta. Sagan geymir því dæmi um að Sjálfstæðisflokkurinn getur líka gert það. Tekjuskattur, útsvar, bensíngjöld, áfengi og tóbak og fleira var hækkað um síðustu áramót eins og kunnugt er. Það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann. Það reyndist nú vera þannig að Sjálfstæðisflokkurinn gat líka hækkað skatta þegar hann stóð frammi fyrir alvöru málsins enda var hann þá í ríkisstjórn.

Ég held að það sé engin leið fær út úr þessu önnur en blönduð leið, að draga úr útgjöldum og spara eins og kostur er en afla líka tekna eftir því sem hægt er með viðráðanlegum og bærilegum hætti. Ég sagði í framsöguræðu minni um fjárlagafrumvarpið að hvorug leiðin ein og sér væri fær. Það er augljóslega hvorki hægt að gera þetta með einum saman niðurskurði eða einni saman tekjuöflun. Við getum rætt um blönduna, hlutföllin þarna á milli og hvernig við eigum að bera niður. Það er í mikið ráðist að ná þeim 95 milljarða kr. afkomubata milli ára í fjárlögum ríkisins sem ætlunin er að reyna að gera. (Forseti hringir.) Það reynir á þanþol til hins ýtrasta, bæði á niðurskurðar- og tekjuöflunarhlið.