138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[12:07]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Þetta mál ber mjög brátt að og kemur snöggt inn í þingið og er ætlast til þess að við afgreiðum það á snöggan hátt. Við sjálfstæðismenn í nefndinni tókum þá afstöðu og hér í þinginu að hjálpa til við að hraða þessari vinnu og þessu mikilvæga máli í gegnum þingið, en við getum engu að síður ekki annað en skrifað undir nefndarálit með fyrirvara, þar sem við getum að sjálfsögðu ekki borið ábyrgð á því hversu hratt og hroðvirknislega í rauninni málsmeðferðin hefur verið í gegnum nefndina. Engu að síður er hér um mikilvægt mál að ræða og við sjálfstæðismenn höfum haldið því fram að það hafi orðið ákveðinn forsendubrestur hjá skuldurum landsins í kjölfar bankahrunsins og á því þurfi að taka.

Skuldsetning heimilanna er mikil og það er mikilvægt að flokkarnir komi sér saman um það hvernig eigi að taka á þessu gríðarlega stóra máli. Þess vegna höfum við lagt til, og lögðum það fram strax í vor, að í fyrsta lagi ætti að leggja fram aðgerðir sem mundu stuðla að því að greiðslubyrði heimilanna lækkaði en lánin lengjast að sama skapi á móti, til þess að gefa okkur ákveðinn tíma til að taka á vandanum heildstætt og fara í stærri aðgerðir. Í kjölfarið hefði átt að stofna þverpólitískan hóp sem hefði farið yfir þetta mál og komist að og lagt til sameiginlega niðurstöðu. Það er ekkert auðvelt að leggja fram sameiginlega niðurstöðu þegar maður er í pólitík, en engu að síður er það nauðsynlegt á þeim tímum sem við lifum í dag. Það er einfaldlega staðan. Hefði verið farið að tillögum sjálfstæðismanna, þá hefði þessi málsmeðferð verið vandaðri hér í þinginu, þar sem hinn þverpólitíski hópur hefði starfað í lengri tíma.

Við sjálfstæðismenn lögðum í ákaflega mikla vinnu nú í sumar og haust til að að reyna að greina skuldastöðu heimilanna og þennan vanda. Við rákum okkur strax á það að mjög erfitt er að afla upplýsinga um raunverulega stöðu. Ég tel fullvíst að allir þeir stjórnmálamenn og embættismenn sem hafa farið í að skoða þessi mál séu sammála um að á þessu þurfi að taka.

Ég fagna því sérstaklega að í breytingartillögum nefndarinnar sem lagðar eru fram kemur fram sú hugsun sem við sjálfstæðismenn höfum talað fyrir, að ráðherra skuli við gildistöku laganna skipa starfshóp með fulltrúum allra þingflokka, sérfræðingum og fulltrúum hagsmunaaðila. Hópurinn skal meta árangurinn af framkvæmd laganna og skoða þau álitaefni sem komu upp við framkvæmdina. Jafnframt teljum við mikilvægt að þessi hópur taki við því kefli sem vissulega er enn á ferð og það er einmitt hvort þessar aðgerðir séu fullnægjandi eða ekki. Það er mikið álitaefni hvort svo sé, en við fögnum sérstaklega að þessi leið sé farin og teljum að hér sé komið til móts við þær kröfur sem við höfum sett fram í málinu í efnahagstillögum okkar og þingsályktunartillögu um bráðaaðgerðir. Þannig að við fögnum því sérstaklega.

Ég vil jafnframt taka undir sjónarmið flutningsmanns nefndarálitsins, hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, um gott samstarf í nefndinni. Þetta voru ánægjulegir fundir og langir, stóðu lengi og því ágætt að hafa hagmælta þingmenn þar innan borðs til þess að súmmera upp hvað nefndin var að gera. Ég tel að vinnubrögð innan nefndarinnar hafi verið til fyrirmyndar og við lögðumst öll á eitt að bæta það frumvarp sem lagt var fram, enda sjáum við að breytingartillögurnar eru talsverðar og breytingin á málinu hefur orðið talsverð í vinnu nefndarinnar. En þrátt fyrir það held ég að mikilvægt sé að við fylgjumst vel með vegna þess að málið ber það brátt að.

Það voru ýmsir sem komu á fund nefndarinnar og aðrir sem náðu að skila inn umsögn, þótt tíminn væri mjög stuttur. Athugasemdirnar eru í rauninni viðamiklar og þær fela náttúrlega fyrst og fremst í sér gagnrýni á málsmeðferðina, þar sem lítill tími gafst til að kynna sér málin og koma með athugasemdir. Jafnframt hafa Hagsmunasamtök heimilanna bent á að þessar aðgerðir gangi ekki nógu langt og gætu í versta falli verið verri en að gera ekki neitt, en það hefur einfaldlega ekki gefist tími vegna þessa snarpa vinnulags að kafa nógu djúpt ofan í þessar athugasemdir, því miður. Þess vegna er starfshópurinn mikilvægur og við sjálfstæðismenn munum vinna ötullega að því að fara yfir þetta í framhaldinu og fara yfir það sem betur má fara.

Ég tel að sá starfshópur sem verður skipaður komi til með að gegna mikilvægu hlutverki og í rauninni talsvert nýju hlutverki við það að fylgja eftir löggjöf og fylgja því eftir að koma með frekari úrbætur og frekari aðgerðir strax í kjölfar þess að það sjáist hvernig framkvæmdin á þessum lögum verður.

Þá hafa verið gerðar athugasemdir varðandi samkeppnissjónarmið, sem vissulega vekur talsverðar spurningar um vinnulag, þetta felur í raun samráð samkeppnisaðila. Vissulega er það eitthvað sem hefði verið gott að hafa tíma til að kafa betur ofan í og koma með einhverjar breytingartillögur um, en því miður gefst einfaldlega ekki tími til þess. Við sem sátum í nefndinni vorum sammála um að fallast á að flýta þessu þannig að lögin geti tekið mið af greiðsluseðlum núna í nóvember. Engu að síður mun starfshópurinn fara yfir samkeppnissjónarmiðin. Það er gríðarlega mikilvægt að við horfum vel á þetta.

Jafnframt vil ég taka undir þá gagnrýni sem fram kom hjá þeim sem komu fyrir nefndina og náðu að skila inn umsögn varðandi það að þetta nái yfir alla. Við ræddum það mjög mikið í nefndinni og þetta varð niðurstaðan, en það felur samt í sér talsverða forsjárhyggju sem ég í hjarta mínu er ekkert sérstaklega sammála að skuli gilda. En gott og vel, það er ríkisstjórn í þessu landi sem leggur fram þessa tillögu og við tókum það sem okkar hlutverk að hraða málinu í gegnum nefndina án þess að bera í sjálfu sér ábyrgð á því hvernig málinu var stillt upp.

Þá bárust athugasemdir eða umsögn frá ríkisskattstjóra varðandi skattalegu hliðina. Vissulega er mikilvægt að festa sé í skattheimtu og þeim reglum sem þar gilda, en engu að síður eru hér uppi mjög sérstakar aðstæður og mjög mikill vandi hjá hinum skuldsettu heimilum og því verður að grípa til aðgerða. Þess vegna reyndi nefndin að finna ásættanlega millileið, en það verður að sjálfsögðu skoðað ofan í kjölinn í vinnu nefndarinnar sem ráðherra skipar.

Þá hefur talsmaður neytenda gert miklar athugasemdir varðandi skort á samráði. Það eru einfaldlega vinnubrögð sem ég vona að við eigum ekki eftir að gera að reglu eða eigum nokkurn tímann eftir að sjá í rauninni aftur í nokkru öðru máli, vegna þess öll vinna varðandi löggjöf á að sjálfsögðu að vera markviss, uppi á borðum, í miklu samráði við hagsmunaaðila o.s.frv. En eins og ég hef komið inn á áður er staðan sú að aðgerðir hafa dregist og við ætlum okkur ekki að standa fyrir því að þetta mál frestist enn frekar vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að grípa til aðgerða nú þegar.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram ákveðnar tillögur varðandi skuldastöðu heimilanna. Við teljum mjög mikilvægt að þær aðgerðir sem verður gripið til til þess að leiðrétta skuldastöðu heimilanna uppfylli ákveðin meginsjónarmið, hafi ákveðin meginmarkmið sem fela þá í sér að við viðhöldum þeirri ríku hefð að Íslendingar búi enn og áfram í eigin húsnæði. Þetta er einfaldlega eitthvað sem er okkar hefð og okkar gildi og við viljum halda í þetta. Við teljum að þetta sé mikilvægt fyrir okkar samfélag og þessi hugsun Íslendingsins að eiga sínar eignir sjálfur og vera sjálfstæður, er nokkuð sem við viljum halda í.

Jafnframt er að sjálfsögðu mikilvægt að aðgerðirnar tryggi það að fólk geti greitt skuldir sínar og greiðsluvilji verði tryggður. Enn fremur að þær leiði ekki til umtalsverðra skattahækkana, séu ekki vinnuletjandi og leiði að sjálfsögðu ekki til landflótta, því að sjálfsögðu vill enginn stjórnmálamaður stuðla að því.

Við viljum almennar aðgerðir þar sem gætt er jafnræðis. Að hluta til koma þessar tillögur til móts við þau sjónarmið okkar en við munum að sjálfsögðu fylgja því mjög vel eftir hvernig meðferð málsins og framkvæmd þess verður í framhaldinu.

Virðulegi forseti. Það var talað hérna um 6. gr. í frumvarpinu. Nefndin gerði þá tillögu að hún falli út. Vissulega var efni 6. gr. talsvert mikilvægt upp á framgang málsins, en þar er fjallað um heimild Íbúðalánasjóðs að fengnu samþykki ráðherra til að setja á fót opinbert hlutafélag. Þessi breyting og þetta mál er það stórt að ekki var hægt að fara í að keyra það í gegn á svona skömmum tíma, enda er sú breyting gerð að ráðherra skal í stað þess leita leiða til að mæta skorti á langtímafjármögnun á íbúðamarkaði og tryggja fjármögnun og endurfjármögnun íbúðalána fyrir fjármálafyrirtæki og Íbúðalánasjóð. Ég geri ráð fyrir því að ráðherrann leggi fram vandað og gott og vel unnið frumvarp um þetta mál þar sem leitað verði samráðs við hagsmunaaðila og það mál fái vandaða meðferð hér í þinginu.

Virðulegi forseti. Ég vil á endanum einfaldlega segja að það er gríðarlega mikilvægt að við sem hér störfum á þinginu vekjum von hjá fólki, hjá þeim sem hér búa og eiga sín heimili, von um að við séum að grípa til aðgerða sem komi til með að koma okkur upp úr dýpstu lægðinni. Ég tel að við séum að stíga hér fyrsta skrefið að því, vissulega seint en engu að síður er þetta fyrsta skref. Við sjálfstæðismenn munum koma til með að halda áfram að leggja okkar af mörkum til að leysa skuldavanda heimilanna og gerum það á þessum grundvallarsjónarmiðum sem ég rakti hér áðan. Við styðjum þetta mál og erum á nefndarálitinu með þeim fyrirvara sem ég hef greint frá, sem felst aðallega í því að málið fer allt of hratt hér í gegnum þingið, við fáum of lítinn tíma til þess að vinna það, við fáum of lítinn tíma til þess að leita samráðs við hagsmunaaðila og sérfræðinga og það var of lítið samráð haft við undirbúning málsins af hálfu ráðuneytisins við þessa aðila.

Þetta er í hnotskurn okkar afstaða. Og, frú forseti, ég hlakka til að fylgjast með umræðunum um þetta mál.