138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:32]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst árétta að allir sem hafa atvinnuréttindi hafa rétt til að leigja úr þessum potti en síðan verður sett nánari reglugerð um það. Gert er ráð fyrir að því sé skipt á tímabil, jafnvel á einn mánuð eða tvo. Það á svo að útfæra í reglugerð hvernig þessu er til hagað, að setja reglur um netafjölda og annað því líkt sem varðar umgengni og veiðar að þessum fisk, það er alveg hárrétt.

Varðandi spurningar hv. þingmanns um karfann veit ég að það er álitamál. Það var til meðferðar á síðasta þingi og þá voru skiptar skoðanir um það. Þetta er samkvæmt tillögum hóps sem vann að þessum málum og samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunar. Ef önnur sjónarmið koma upp verða þau væntanlega skoðuð í hv. sjávarútvegsnefnd. Þetta er það sem hefur ítrekað verið lagt til að farið verði eftir en ég þekki sjónarmið hv. þingmanns sem hann kynnti hér.