138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:36]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf ákveðin heiðríkja yfir hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur þegar hún ræðir sjávarútvegsmálin. Mér þótti þó sem yfir henni væri þrumuský vegna þess að ég dirfðist að nefna einn tiltekinn hóp, ég vitnaði til ágætrar ræðu hæstv. sjávarútvegsráðherra af aðalfundi þeirra samtaka. Ég geri engar athugasemdir við það hverjir skipa þann starfshóp. Ég held að 23 einstaklingar sitji í þeirri nefnd sem um ræðir. Það væri nú undarlegt ef hv. þingmaður gerði kröfu um að einn tiltekinn hópur úr þeirri atvinnugrein sem við erum að ræða hér ætti ekki sæti í viðkomandi nefnd. (ÓÞ: Hvaða vitleysa er þetta? Ég hef ekkert talað um það.)

Hv. þingmaður, mætti ég biðja um frið fyrir frammíköllum, þú færð tækifæri til að svara í andsvari síðar.

Ég hef ekkert verið að tala um það. Það er rangt að gefa til kynna að ég hafi hagað máli mínu þannig að ákvæðið svonefnda um skötuselinn væri til þess gert að kippa grunninum undan tilteknum hópi eða tilteknum flokki í þessari atvinnugrein. Það er bara ekki rétt. Ég orðaði það hins vegar þannig að þetta ákvæði eins og það er sett fram í frumvarpi hæstv. ráðherra gerði kröfu um og væri fyrsta skrefið í að gera grundvallarbreytingar á því fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum unnið eftir. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa að slík breyting sé rökstudd með ábyrgari og fyllri hætti en þarna er dregið fram. Það er einnig sjálfsögð og eðlileg krafa að settar séu fram hugmyndir um með hvaða hætti menn ætli að halda áfram með þetta dæmi.

Ég mótmæli því hins vegar að menn setji mál sitt þannig fram að hér sé dregið í dilka eftir því hvar fólk kýs að starfa í þeirri atvinnugrein sem (Forseti hringir.) leggur inn þessi verðmæti í íslenskt þjóðfélag.