138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

lánssamningar í erlendri mynt.

122. mál
[12:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um lögmæti gengistryggðra lána. Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað bent á að þessi lán kunni að vera ólögleg og talsmaður neytenda skrifaði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra bréf þann 23. október þar sem hann spurði m.a. út í það hvort ráðuneytið hefði aflað lögfræðiálits um lögmæti gengistryggðra lána og hvort fyrirvari hafi verið gerður um það við endurreisn bankanna. Hann hefur líka tekið undir þá túlkun að gengisbundin lán til neytenda standist ekki lög og lýst yfir áhyggjum af efnahagsreikningi bankanna ef ekki hafi verið tekið tillit til lagalegrar óvissu varðandi gengistryggð lán í uppgjöri milli nýju og gömlu bankanna.

Á málþingi nýlega hjá Orator sagði Eyvindur G. Gunnarsson, lektor við lagadeild HÍ, að óheimilt væri að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Að mati hans eru umrædd lán ekki erlend lán, því að lántakendur hafi aldrei haft annað í höndunum en íslenskar krónur, bæði lánið og afborganirnar hafi farið fram í íslenskum krónum. Máli sínu til stuðnings benti hann m.a. á lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, auk lögskýringargagna og einhverja skýringu við 13. og 14. gr. laganna.

Ég er hér með nokkrar spurningar er varða einmitt lögmæti þessara lána. Þessar spurningar bárust mér frá Guðmundi Andra Skúlasyni og fjölmörgum öðrum lántökum í lok október. Þær voru sendar á alla þingmenn, þar á meðal ríkisstjórnina og ýmsa bankastarfsmenn, auk þeirra ráðherra sem ekki eru þingmenn. Samkvæmt vefsíðu Guðmundar Andra bárust engin svör frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Ég mundi því gjarnan vilja nýta þann stjórnarskrárbundna rétt minn sem þingmaður og spyrja hæstv. ráðherra eftirfarandi spurninga þar sem hann fer með bankamál í ríkisstjórninni:

1. Hefur ráðherra kynnt sér skilmála lánssamninga í erlendri mynt með tilliti til orðalags og túlkunar á höfuðstól skuldar, sérstaklega í tilvikum þar sem skýrt er kveðið á um að skuldari viðurkenni að skulda fjármálastofnun jafnvirði tiltekinnar krónutölu íslenskrar í tilgreindum myntum og hlutföllum?

2. Hver er afstaða ráðherra til slíkra lánssamninga, sérstaklega að teknu tilliti til 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, og athugasemda við téðar greinar?

3. Hversu margar lánastofnanir byggðu lánssamninga í erlendri mynt á því orðalagi sem tilgreint er í 1. tölul.? Óskað er upplýsinga um heildartölu hjá lánastofnunum og áætlað heildarnafnvirði lánssamninganna, en ekki hvaða lánastofnanir veittu lánin né upphæðir hjá einstökum stofnunum.

4. Hvað er áætlað að það mundi kosta bankakerfið ef lánssamningar, þar sem segir að skuldari viðurkenni að skulda fjármálastofnun jafnvirði tiltekinnar krónutölu íslenskrar í tilgreindum myntum og hlutföllum, reyndust ólöglegir og höfuðstóll skuldar stæði því í upphaflegri krónutölu að frádregnu því sem greitt hefur verið af höfuðstól til dagsins í dag?

5. Hefur við frágang og uppgjör á milli nýju og gömlu bankanna verið tekið tillit til þess bókfærða mismunar sem kann að vera á virði erlendra lánssamninga reynist téðir samningar ólöglegir?

6. Hefur erlendum kröfuhöfum verið kynnt sú lagalega óvissa sem ríkir um verðmæti skuldbindinga sem gefnar voru út í erlendri mynt eða bundnar dagsgengi erlendrar myntar?