138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

launabónusar -- Icesave -- umsókn að ESB.

[13:35]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hugðist spyrja formann fjárlaganefndar út í mál tengd Icesave en sé að hann er ekki mættur í salinn. Bretar og Hollendingar höfnuðu þeim fyrirvörum sem Alþingi setti með lögum 96/2009 — þarna kemur hann. Nú heyrast raddir um að fyrirvararnir séu á einhvern hátt betri og þannig hefur formaður fjárlaganefndar sagt opinberlega að hann telji breytingarnar ásættanlegar og sumar hverjar betri, aðrar kannski svipaðar, eftir þessar breytingar þannig að óhætt sé að samþykkja þessa ríkisábyrgð miðað við fyrri afgreiðslu. Þetta sagði hann í Ríkisútvarpinu um daginn.

Ef þetta væri staðreynd hafa Bretar og Hollendingar einfaldlega gætt betur að hagsmunum þjóðarinnar en núverandi ríkisstjórn. Sem betur fer er það ekki þannig, Hollendingar og Bretar gæta hagsmuna þegna sinna fyrst og fremst og búið er að útþynna fyrirvarana með öllum mögulegum hætti.

Formaður fjárlaganefndar hefur rökstutt þessar fullyrðingar sínar á þann hátt að það sé á einhvern hátt betra núna að fyrirvararnir séu komnir inn í lánasamningana. Þessu hafna ég alfarið. Það er mun verra fyrir réttarstöðu Íslendinga að fyrirvararnir séu komnir inn í samningana en standi ekki í lögum, og ábyrgð íslenska ríkisins er þar með orðin skilyrðislaus og allt dómsvald og túlkun samninganna fellur undir (Forseti hringir.) bresku dómstólana.

Ég hvet hv. formann fjárlaganefndar til að blekkja ekki almenning (Forseti hringir.) með því að segja að fyrirvararnir séu betri, heldur koma fram á heiðarlegan hátt.