138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

launabónusar -- Icesave -- umsókn að ESB.

[13:42]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mér ánægja að svara fyrirspurn hv. þm. Illuga Gunnarssonar. Ég held að við vitum ekkert um samningsstöðu Íslands í þessum viðræðum fyrr en samningaviðræður hafa farið af stað. Það hefur ekki gerst enn. Ég á von á því að það gerist með þunga í upphafi næsta árs og að þegar líður á samningaferlið muni þessir vindar breytast sem vissulega hafa verið í landinu undanfarið.

Nú er búið að skipa samninganefnd og flestir eru ánægðir með hana. Ég treysti aðalsamningamanni fullkomlega. Ég var í Brussel ásamt fleiri þingmönnum í vikunni og þar kom fram að svörunum við spurningunum 2.500 var skilað fyrr en ætlað var. Það er ánægja þar og fólk er hrifið af því hvað þessari litlu þjóð tókst að skila þessum svörum vel og það þykir á þeim góður bragur.

Við vonuðumst til að ráðherraráðið gæti tekið ákvörðun á fundi sínum í desember en ekki er ljóst hvort sú dagsetning stenst. Næsti fundur er í mars og þá verður það klárað. Mér fyndist verra ef það næðist ekki en ég kalla það ekki vonbrigði og alls ekki áfall fyrir samningana.

Sendiráð Evrópusambandsins verður opnað hér 1. janúar 2010 sem sýnir að Evrópusambandinu og framkvæmdastjórninni er mikil alvara með þetta allt saman.