138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

kynning á breyttu fyrirkomulagi í 10. bekk.

137. mál
[14:58]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Í ljósi breytinga á samræmdum prófum að vori til könnunarprófa að hausti var komið í veg fyrir þá gífurlegu stýringu sem samræmdu prófin höfðu á allt skólastarf þegar þau voru að vori. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, þar sem kjarkur var hér á þingi til þess að breyta þessu, hvernig henni litist á að ganga enn lengra í því að stýra ekki skólunum með sama hætti og afnema það sem er bundið í námskrá, ákveðinn kennslustundafjöldi á bak við hverja og eina grein, og fela skólunum á vettvangi að ráða þeirri för og stýra náminu í sinni heimabyggð með tilliti til þess sem þar telst vænlegast hverju sinni, án þess þó að það komi á nokkurn hátt niður á gæðum náms eða möguleikum nemenda til framhaldsnáms úr grunnskóla yfir í framhaldsskólann. Vegna þess að í mínum huga (Forseti hringir.) á að ríkja traust á milli skólastiga þannig að við treystum því sem kemur úr grunnskólanum í framhaldsskólann og framhaldsskólanum í háskólann.