138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

stofnun framhaldsskóla í Rangárþingi.

146. mál
[15:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er varla að þingmaður af suðvesturhorninu þori að fara inn í þessa umræðu en ég ætla engu að síður að taka það djarfa skref.

Ég held að það skipti okkur öll máli að hagsmunir landsbyggðar eru hagsmunir þéttbýlis og öfugt og það skiptir okkur máli að börn alls staðar af landinu hafi aðgang að námi, framhaldsskólanámi, við vitum náttúrlega um grunnskólann en líka að framhaldsskóla. Við erum búin að taka mörg góð skref sameiginlega á síðustu missirum, við ræddum framhaldsdeildina á Patreksfirði í síðustu viku, á Þórshöfn er hún byrjuð, og það er gott að finna þann takt sem hér er sleginn að við viljum styrkja þetta aðgengi. Það er alveg hárrétt hjá menntamálaráðherra og henni ber skylda til að draga fram að það er auðvitað vegna þess efnahagsástands sem við stöndum frammi fyrir að við þurfum að gera þetta á hagkvæman hátt o.s.frv. Lykilorðið í þessu er samvinna heimilis og skóla, sveitarfélaga og ráðuneytis til þess að hægt verði að gera þetta að veruleika sem víðast en líka það að menn verða að hafa í huga gæði náms þegar kemur að þessu.

Ég vil líka draga það fram sem ég gerði í umræðunni í síðustu viku að á móti kemur (Forseti hringir.) sparnaður og þá verulegur sparnaður varðandi (Forseti hringir.) jöfnun námskostnaðar og varðandi dreifbýlisstyrkinn á móti, þannig að ég held að menn verði að hugsa þetta heildstætt þegar hugað er að eflingu náms í heimabyggð.