138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:58]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Við beindum því áðan til hæstv. forseta að kalla til fjárlaganefnd og ég vil spyrja hvort það verði ekki örugglega gert. Og ef fjárlaganefnd verður ekki kölluð til og gert hlé á umræðunni, hvort þá sé ekki ástæða fyrir hæstv. forseta að kalla til forsætisnefnd til að fara yfir málið og meta þau gögn sem liggja fyrir, og hvort hún komist ekki örugglega síðan að þeirri niðurstöðu að hvetja fjárlaganefnd til að funda, því að gögnin sem við erum að benda á hafa komið fram, vel að merkja eftir að við hófum 2. umr., eftir að við fórum í umræðuna á fimmtudaginn, frá Sigurði Líndal, frá Daníel Gros, frá Stefáni Má Stefánssyni háskólaprófessor. Ég tel mikilvægt að forsætisnefnd fari a.m.k. yfir þessar ábendingar og skoði það gaumgæfilega hvort fjárlaganefnd hafi ekki ástæðu til að funda um þetta mál, minni hafa nú verið tilefnin.