138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða ræðu. Þar var margt sem mætti kryfja nánar en ég hef sérstakan áhuga á því að heyra þingmanninn fjalla meira um það sem hann nefndi í ræðunni og lýtur að því að þessar vaxtagreiðslur hafa að sjálfsögðu raunveruleg áhrif á lífskjör Íslendinga. Stundum hefur verið reynt að setja þetta mál í það samhengi að það sé stórt efnahagslegt mál sem varði bara ríkið og einhverja stjórnmálamenn en komi lítið við sögu hjá almenningi.

Þess vegna væri fróðlegt að heyra hv. þingmann velta því fyrir sér hvaða áhrif það hafi á líf almennings í landinu þegar verja þarf hundrað milljón krónum á dag bara í það að borga vexti. Hv. þingmaður hefur reynslu af fjárlagagerð og því að sitja í ríkisstjórn, hversu miklu munar um 100 milljónir á dag? (Forseti hringir.)