138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

Icesave og bréf frá Gordon Brown -- orð forsætisráðherra um virkjanir.

[11:34]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að það er logn og blíða á stjórnarheimilinu. Ég er að sjálfsögðu ekki hér til andsvara fyrir menn úti í bæ sem kjósa að tjá sig um einhver álitamál í stjórnmálum á heimasíðum sínum. Ég get bara sagt varðandi það mál efnislega sem hér er til umfjöllunar að stöðugleikasáttmálinn sem þingmaðurinn vék að er að sjálfsögðu í gildi en það er ekkert í honum sem segir að víkja eigi til hliðar lögum og reglum og stjórnsýslu, (Gripið fram í.) m.a. að því er varðar umhverfismálin. Það mál er í eðlilegu stjórnsýslulegu ferli og það verður að sjálfsögðu staðið við og farið eftir lögum og reglum hvað það varðar.