138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:10]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir sköruglega og ágæta ræðu í þingsal. Það er alltaf hressandi að hlusta á hv. þingmann. Við í stjórnarandstöðunni erum af stjórnarliðum sökuð um að setja einungis fram gagnrýni en hafa engar hugmyndir um það hvað skuli gera við þetta mál. Nú heyri ég að hv. þingmaður ætlar að greiða atkvæði gegn frumvarpinu og þá finnst mér rétt að við fáum tækifæri til að útskýra hvað við í stjórnarandstöðunni mundum gera ef við næðum að sannfæra meiri hluta þingmanna um að greiða atkvæði gegn þessu máli. Í hvaða feril sér hv. þingmaður fyrir sér að málið mundi fara? Getur hann farið lauslega yfir það hverjir væru þá helstu áherslupunktarnir í samningaviðræðum?