138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir sagði hér áðan. Við verðum að setja þetta í enn víðara samhengi því að í gær bárust þær fréttir að hugmyndin væri sú að taka umsókn Íslendinga ekki fyrir nú á haustdögum heldur einhvern tímann á næsta vori úthallandi. (Forseti hringir.) Ég spyr hvort …

(Forseti (ÁÞS): Forseti gerir athugasemd við það að þingmanninum var veitt orðið til að tala um fundarstjórn forseta.)

Virðulegi forseti. Ég er að fara að bera upp spurningu, ég er að fara að víkja að því núna.

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður þingmanninn um að hafa hljóð á meðan forseti talar. Forseti ætlast til þess að þegar menn tjá sig um fundarstjórn forseta sé talað um fundarstjórn forseta en ekki um aðra hluti.)

Þessi athugasemd er um fundarstjórn forseta af því að ég var að spyrja hvort ekki væri þá verið að setja þetta í samhengi við það sem hv. þingmaður var að tala um hér áðan, að nú væri farið að hóta okkur með því að ekki yrði tekið eðlilega á beiðni okkar um aðildarviðræður vegna Icesave-málsins. Ég var að spyrja hvort þetta væri í samhengi við þær fréttir sem bárust í gær og mér finnst mikilvægt að hæstv. utanríkisráðherra greiði fyrir umræðum um Icesave með því að upplýsa okkur um þetta með einhverjum hætti.