138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:25]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fór hér mikinn eins og hennar er von og vísa um þetta mál. Hún kom m.a. inn á það í ræðu sinni að nú hefði Evrópuþingið sent Alþingi Íslendinga skýr skilaboð um að það skyldi samþykkja Icesave-samninginn refjalaust. Mér leikur þess vegna forvitni á að vita hvort hv. þingmaður hefur séð umrædda samþykkt Evrópuþingsins, hvort hún hefur hana undir höndum, hvort hún hefur lesið hana og hvort hún getur þá hugsanlega fundið þessum orðum sínum stað. Hún er ekki ein um að hafa haldið þessu fram hér í dag, það hafa fleiri þingmenn gert. Mér leikur því forvitni á að vita hvort þingmaðurinn hefur lesið þessa samþykkt Evrópuþingsins sem hún vísaði til. Og hvort hún hefur fundið þessum orðum sínum stað í þeirri samþykkt og gæti hugsanlega bent mér á hvar það er að finna.