138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:31]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum nú gífurlega stórt hagsmunamál fyrir alla Íslendinga til langrar framtíðar og því er eðlilegt að fara yfir það í ræðu. Ég vil byrja á því að segja að ég hef orðið vör við að ýmsir stjórnarsinnar hafa gert athugasemdir við að hér séu haldnar ræður til þess að fara vel yfir þetta frumvarp. Mér þykir það svolítið sérstakt af því að það er alveg ljóst að málið er þess eðlis að það verður að ræða til hlítar. Ef stjórnarsinnar halda að hægt sé að fara með það léttilega í gegn er það ekki svo. Stjórnarandstaðan hlýtur að vilja ræða málið í þaula í ljósi þess hve stórt það er og hvers eðlis það er. Þetta mál er mjög flókið. Það hefur einu sinni áður komið hingað inn og fór í gegnum mikla vinnslu, menn lögðust vel yfir málið. Það tók gífurlegan tíma í sumar, aðallega af því að stjórnarsinnar höfðu ekki meiri hluta fyrir málinu. Það var meginástæðan að mínu mati. Síðan var frumvarpið samþykkt og við héldum að það væri frá en núna er það komið aftur hingað inn. Það er því ekkert skrýtið að við ræðum það aftur mjög vel enda hefur málið tekið talsverðum breytingum á milli þessara lota.

Mig langar í upphafi að fara yfir forsöguna og ætla að teygja mig svona tvö ár aftur í tímann, til þingkosninganna árið 2007, af því að það er merkilegt að sjá hvað hefur gerst á þessum tíma. Það er ótrúlega mikið í íslenskri sögu. Árið 2007 voru alþingiskosningar og þær voru sögulegar á margan hátt. Í kjölfar þeirra tók við ný ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Það var sem sagt breytt stjórnarmynstur frá því sem verið hafði í tólf ár þar á undan. Sú ríkisstjórn var ekkert lítil, virðulegur forseti, hún var mjög stór, ef svo má að orði komast. Hún var með 43 þingmenn af 63, meira en 2/3 hluta á Alþingi, en stjórnarandstaðan hafði einungis 20 þingmenn, minna en 1/3 . Því má segja að ríkisstjórnin sem tók við árið 2007, ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, hafi verið ofurríkisstjórn að því leyti að hún hafði mikil völd innan þingsins.

Kannski var veikleikinn þó falinn í styrkleikanum, virðulegur forseti. Þessir tveir flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, voru svo ólíkir að það var sífellt tog á milli þeirra og samstarfið gekk verr en maður kannski áætlaði í upphafi. Ég gerðist djörf og sagði við fjölda manns að ég teldi að þessi ríkisstjórn sem þá tók við sæti mjög lengi, 12, 16 ár giskaði ég á. Ég tók meira að segja þátt í veðmáli um þetta. Það er ágætt að upplýsa þingmenn um það til þess að skemmta þeim aðeins í morgunsárið hér á laugardagsmorgni að ég veðjaði um að þessi ríkisstjórn yrði frekar langlíf við vin minn sem taldi að hún yrði skammlíf. Ég tapaði þessu veðmáli og forláta göngustafnum fyrir vikið en það verður að hafa það.

Þetta fór nú svona. Þessi ríkisstjórn var skammlíf og lifði einungis í tæp tvö ár en það á sér líka ákveðnar ástæður. Auðvitað var það aðallega bankahrunið sem varð þess valdandi að sú ríkisstjórn fór frá. Í aðdraganda bankahrunsins er ljóst að talsverður hópur fólks bjó yfir upplýsingum um hve alvarleg staðan væri orðin og ég mun kannski ná að gera því skil hér á eftir. Um þetta vitna fjölmörg gögn og einnig hafa margar bækur verið skrifaðar um þennan aðdraganda. Ekki má heldur gleyma rannsóknarnefndinni sem vinnur einmitt í því máli og mun skila skýrslu til okkar í lok janúar, byrjun febrúar.

Bankahrunið varð og því fylgdi mikil streita fyrir allt íslenskt samfélag. Þar vil ég sérstaklega tilgreina bæði stjórnmálamenn og embættismenn og auðvitað almenning. Streitan var óheyrileg og þegar ég lít til baka finnst mér eiginlega eins og við höfum lent í algjöru þjóðaráfalli. Ég held að þegar við lítum til baka eftir einhver ár munum við minnast þessa tíma með beiskju.

Sú er hér stendur var erlendis þegar bankarnir hrundu og fylgdist með því úr fjarlægð. Það var mjög sérstakt. Við vorum nokkrir þingmenn staddir á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Við fengum mestar okkar upplýsingar í gegnum fjölmiðla enda vissi þingheimur ekki mjög mikið um málið á þeirri stundu, allar upplýsingar komu í gegnum blaðamannafundi sem voru haldnir hér daglega. Ég tel reyndar að það hafi verið vel gert að halda svoleiðis á málum, að ráðherrar upplýstu þjóðina og alþjóðasamfélagið daglega um hvað var að ske. Það hefði verið hægt að gera þetta með minna upplýsingastreymi en reynt var að koma miklum upplýsingum á framfæri.

Aðalleikendur á þessum tíma í því að koma upplýsingum á framfæri og í þessu máli yfirleitt voru þáverandi hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde og þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra Björgvin G. Sigurðsson. Auðvitað voru aðrir ráðherrar mjög mikið í umræðunni eins og þáverandi hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem reyndar var á þessum tíma einnig í Bandaríkjunum, og þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Árni M. Mathiesen. Margir voru því í sviðsljósinu á þessum tíma.

Sérstaklega minnisstætt er ávarpið sem þáverandi hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde hélt þar sem hann reyndi að útskýra stöðuna fyrir þjóðinni og endaði á orðunum sem núna eru orðin fleyg og verða líklega klassísk, „Guð blessi Ísland“. Ég verð að viðurkenna að þegar ég heyrði þessa ræðu og þetta niðurlag krossbrá mér. Það er mjög óvenjulegt að taka svona til orða í íslenskum stjórnmálum, þetta er frekar algengt orðalag í Bandaríkjunum en mjög óvenjulegt hér á Íslandi. Síðar hefur viðkomandi upplýst að þetta átti að vera vinaleg kveðja en ég held að fæstir hafi upplifað þetta niðurlag þannig. Þetta hljómaði meira eins og: Nú köstum við rekunum, hér er allt farið meira eða minna í steik. Þannig upplifði sú er hér stendur alla vega þetta ávarp sem átti að róa fólk. Þessi lokaorð gerðu það alls ekki.

Á þessum tíma var líka mjög mikil umræða um alls konar fundi og símtöl sem ráðherrar höfðu átt við kollega sína, sérstaklega í Bretlandi. Sú er hér stendur kaus að reyna að ná upplýsingum um hvað hefði skeð með þeirri aðferð að senda fyrirspurnir á ráðherra og fá skrifleg svör. Það er til heilmikið af gögnum, virðulegur forseti, um hvað gerðist í aðdraganda bankahrunsins, m.a. talsvert af upplýsingum sem lúta að Icesave-samningunum sem við ræðum hér í dag. Sum svörin voru reyndar ótrúlega rýr og maður vonar að þau séu rétt, ég veit svo sem ekki betur, en stundum læðist að manni sá grunur að það hafi kannski verið reynt að fegra sannleikann í þessum svörum. Önnur svör eru örugglega alveg kórrétt og þar er vitnað í ýmis gögn, m.a. tölvupósta og bréf sem fóru á milli breskra og íslenskra stjórnvalda og geta kastað ljósi á það sem átti sér stað í aðdraganda bankahrunsins, sérstaklega hvað varðar Icesave-samningana.

Meðal annars var á sínum tíma mjög mikið rætt um símtal þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Árna M. Mathiesens við Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta. Það var mjög sérstakt að símtalið skyldi leka í fjölmiðla af því að það lak hreinlega útskrift af símtalinu frá orði til orðs. Sú er hér stendur telur að þetta hafi verið mikið slys þó að þetta hafi að sjálfsögðu rekið á fjörur stjórnarandstöðunnar þannig að menn gátu þá alla vega hafið umræður við stjórnvöld um þetta símtal. Það er mjög óheppilegt að svona viðkvæm gögn leki og ég tel að stjórnvöld annarra ríkja muni passa sig verulega þegar þau tala við íslenska ráðamenn eftir þetta fyrst þau eiga á hættu að símtöl milli ráðherra leki og birtist í Kastljósinu, því þetta símtal birtist fyrst í Kastljósinu. Að mínu mati er alveg á hreinu að það lak úr íslenskri stjórnsýslu, hugsanlega frá einhverjum hæstv. ráðherrum, ég skal ekki segja. Kannski komumst við aldrei að því en að mínu mati var þetta geysilega mikið slys. Það var með ólíkindum að lesa útskriftina og hvernig þetta samtal hafði verið á milli þessara aðila. Miðað við tilefni símtalsins var það allt með ólíkindum. Þetta símtal er nú prentað í þingskjölum og menn geta nálgast það bæði á ensku og í íslenskri útgáfu.

Síðan þegar bankarnir hrundu voru sett hér neyðarlög. Það var gert mjög hratt og þau hafa verið mjög umdeild og umrædd síðan. Það er ekki víst að við höfum séð fyrir endann á því hvernig það mál allt saman fer en stjórnvöld töldu alla vega að það væri ekki annað hægt en að setja neyðarlög í hvelli til þess að bjarga því sem bjargað varð og reyna að halda uppi einhvers konar bankakerfi í kjölfar bankahrunsins þannig að allt færi ekki algjörlega úr böndunum. Stjórnvöld töldu þetta vera skástu leiðina af mörgum slæmum eins og við höfum heyrt menn færa rök fyrir síðar.

Segja má að síðan þá hafi einungis komið neikvæðar fréttir um stöðu bankamála á Íslandi, um Icesave-málið og hvað átti sér stað í bankakerfinu í aðdraganda bankahrunsins. Það hafa verið fréttir upp á hvern einasta dag liggur við í hverjum einasta fjölmiðli og þær eru yfirleitt mjög neikvæðar. Íslensku samfélagi er viss vorkunn að fá svona mikið af erfiðum og neikvæðum fréttum sem gera lítið annað en að draga kjark úr fólki og láta því líða illa. Þetta eru því erfiðir tímar, virðulegur forseti.

Síðan voru gerð samningsdrög við Hollendinga og hæstv. þáverandi fjármálaráðherra og utanríkisráðherra, Árni M. Mathiesen og Össur Skarphéðinsson, komu aðallega að því máli. Eftir á að hyggja hafa menn ekki verið ánægðir með þessi samningsdrög. Þá átti að taka lán og borga talsvert háa vexti. Ég man ekki töluna í augnablikinu, virðulegur forseti. (Fjmrh.: 6,7%.) 6,7% upplýsir hæstv. fjármálaráðherra.

Ég vil taka fram að ég er ánægð með að hæstv. fjármálaráðherra sé hér á laugardagsmorgni í morgunsárið og tel reyndar nauðsynlegt að hæstv. fjármálaráðherra fylgist með þessari umræðu. Hér eru líka fleiri hv. stjórnarþingmenn, hv. þm. Björn Valur Gíslason og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, og ég veit að hv. þm. Guðbjartur Hannesson er hér í hliðarsal. Að einhverju leyti er því verið að fylgjast með, alla vega núna, þó að ég hafi heyrt mikla umræðu um að stjórnarliðar hafi látið sig vanta á ákveðnum tímabilum í þessari umræðu.

Sem sagt, yfir í þessi samningsdrög við Hollendinga. Menn voru ekki mjög ánægðir með þá lendingu sem þar varð. Síðan hefur hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson sagt opinberlega að þessi samningsdrög hafi sett íslensk stjórnvöld í mjög þrönga stöðu og hann talaði um að íslensk stjórnvöld hafi meira eða minna verið á hlaupum frá þessu minnisblaði eða þessum drögum síðan. Þessi forsaga hafi verið erfið fyrir samninganefndina sem tók við málinu og að hafa í farteskinu samningsdrögin við Hollendingana.

Ég vil líka draga fram að reynt var að fara í svokallaðan gerðardóm. Við Íslendingar voru mjög ósátt við að þurfa að borga þessa Icesave-innstæðu, þ.e. lágmarkstrygginguna. Auðvitað er ekki verið að tala um að borga þetta allt upp í topp heldur lágmarkstrygginguna sem er upp á 20.887 evrur á hvern reikning. Þokkaleg pólitísk samstaða hefur verið um að telja að algjör lagaleg sé óvissa á bak við þetta atriði. Við ákváðum hins vegar á sínum tíma, eða stjórnvöld sem þá voru, að borga þetta en alltaf sat eftir að láta reyna á lagalega stöðu. Það var flókið að gera það af því að enginn mótaðili eða nokkur annar vildi gera það, við vildum gera það einhliða. Það er nokkuð flókið að fara með svona mál fyrir dóm einhliða nema að gera ekki neitt og bíða eftir því að maður verði sjálfur dreginn fyrir dóm en það telur stjórnarandstaðan reyndar að sé skárra í stöðunni núna en að fara í þessa samninga sem hér liggja á borðinu.

Það var reynt að fara í gerðardóm. Þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Árni M. Mathiesen gerði það og umræða var um það á fundi erlendis. Það er mjög merkilegt mál, virðulegi forseti. Maður áttar sig ekki alveg nákvæmlega á því hvað skeði þar en settur var niður gerðardómur. Eiginlega var aldrei alveg gengið frá því máli en samt voru aðilar settir í þennan dóm. Þeir áttu svo að komast að niðurstöðu mjög hratt, miklu hraðar en Íslendingar gerðu sér grein fyrir, en Íslendingar töldu að þetta væri allt gert með mjög óréttmætum hætti og að við fengjum ekki að koma með andstæð sjónarmið þangað inn. Ég veit ekki hvað skal segja varðandi þennan gerðardóm, hvort hann var yfirleitt til eða ekki, af því að síðan bökkuðu Íslendingar alveg út úr þessu. Alla vega var kippt í þannig að hæstv. fjármálaráðherra þáverandi, Árni Mathiesen, bakkaði hratt út úr þessu öllu og það varð eiginlega engin niðurstaða, alla vega ekki niðurstaða sem við viðurkennum. Þetta var allt mjög sérstakt, virðulegur forseti, þannig að við höfum aldrei almennilega getað útkljáð þetta með lagalega óvissu.

Ég vil líka tilgreina að í kjölfarið á bankahruninu fór í gang gífurlega mikil vinna innan þingsins um hvernig ætti að halda á þessum málum yfirleitt. Hvað gerir þjóð sem lendir í algjöru bankahruni þar sem stærstu bankarnir fara svona illa? Ljóst var að við þurftum að fara í miklar rannsóknir og afar líklegt að eitthvað mundi skolast inn á borð lögreglunnar í þessu sambandi, til saksóknara. Ég held að flestir hafi gert sér grein fyrir því að það gat ekki verið að allt væri með eðlilegum hætti í þessum málum eftir á að hyggja.

Við settum lög um sérstakan saksóknara 10. desember á síðasta ári. Ákveðið var að setja upp sérstaka einingu og ýmsar forsögulegar ástæður eru fyrir því að ákveðið var að hafa það ekki innan þess ramma sem þá var heldur stofna nýtt embætti. Sérstakur saksóknari á að taka bankahrunið sérstaklega að sér, þ.e. ef eitthvað saknæmt er þar að finna á sérstakur saksóknari að rannsaka það og eftir atvikum draga þá fyrir dóm sem hafa gerst sekir. Það var auglýst eftir sérstökum saksóknara og fyrst sótti enginn um ef ég man rétt. Síðan sótti einn ágætur einstaklingur um og þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra hafði samráð við allsherjarnefnd, ég vil koma því hér á framfæri, um ráðningu á viðkomandi aðila. Því má segja að pólitísk samstaða hafi verið um ráðningu á sérstökum saksóknara á þeim tíma. Mér fannst jákvætt að þannig væri haldið á málum af því að þetta embætti er þess eðlis að það er ekki gott ef ágreiningur ríkir um það.

Sérstakur saksóknari tók til starfa en það var mjög lítið að gera hjá honum fyrst. Sérstaki saksóknarinn fór í viðtal við Morgunblaðið, lét mynda sig við langar, tómar hillur þar sem ekki var ein einasta mappa. Mér brá svolítið og hugsaði: Jæja, þetta er ekki alveg nógu gott, þetta er mikilvægt embætti en þarna er bara ekkert komið inn. (Gripið fram í: Hann var svo sérstakur.) Já, þetta var svo sérstakt. Síðan breyttist þetta, mál hafa komið inn til sérstaks saksóknara og nú er unnið þar gott og mikið starf að mínu mati.

Að mínu mati varð líka að vissu leyti eðlisbreyting á starfsemi sérstaks saksóknara þegar við Íslendingar fengum Evu Joly til starfa. Það verður að segjast eins og er að í þessu litla samfélagi er mjög erfitt að taka til í svona erfiðum málum nema með utanaðkomandi hjálp. Ég held að allir hljóti að viðurkenna það. Hér hefur flokkakerfið verið meira eða minna óbreytt um lengri tíma, ákveðnir flokkar lengi farið með völd, verið með sömu ráðherra í ráðherrasætum í langan tíma o.s.frv. Allir þekkja eiginlega alla, erum við ekki öll skyld í sjöunda ættlið? Auðvitað er mjög erfitt að taka á svona málum í þessu litla samfélagi. Þess vegna var svo mikilvægt að mínu mati að fá utanaðkomandi aðstoð og ég tel að valið á Evu Joly hafi verið heppilegt. Hún hefur unnið mikið starf í stórum og erfiðum málum erlendis, virðist ekki víla fyrir sér að taka á afar viðkvæmum atriðum og vann að flestra mati mikið þrekvirki í sambandi við Elf-málið í Frakklandi. Þar þurftu einn eða fleiri ráðherrar að segja af sér í kjölfarið. Ég tel að með liðsinni hennar og fólks sem hún hefur lagt áherslu á að fá hingað til aðstoðar sé alla vega sú er hér stendur öruggari um að þarna sé unnið gott starf. Margt bendir til þess eins og fréttir hafa sýnt á síðustu dögum og vikum.

Ég vil líka draga það fram, virðulegur forseti, að fyrir utan að setja lög um sérstakan saksóknara út af bankahruninu settum við lög um rannsóknarnefnd. Þau lög tóku gildi, ef ég man rétt, 11. desember á síðasta ári, nefndin var skipuð 30. desember og tók þá til starfa. Reyndar þurfti að breyta lögunum 31. mars 2009 og auka enn heimildir rannsóknarnefndarinnar. Hún hefur gífurlegar heimildir en vegna tregðu í bankakerfinu að veita aðgang að ákveðnum upplýsingum varð löggjafinn að skera úr um þá deilu og gaf rannsóknarnefndinni heimildir til þess að fara inn í öll gögn. Rannsóknarnefndin hefur nú verið að vinna og á að koma með niðurstöður um hvað skeði, af hverju hér varð bankahrun. Ég er sannfærð um að hún muni koma með mjög merkilega skýrslu sem verður afar upplýsandi. Mér finnst reyndar svolítið óheppilegt, virðulegur forseti, að nefndin skili ekki af sér fyrr en í lok janúar, byrjun febrúar, af því að við erum að fara í sveitarstjórnarkosningar og það er óheppilegt að blanda mikið þessum erfiðu málum við sveitarstjórnarkosningar. Ég óttast að þetta taki ljósið af sveitarstjórnarkosningunum.

Ég ætla aðeins að leyfa mér að tala um þetta mál þó að það tengist kannski ekki Icesave-málinu þráðbeint. Þetta tengist auðvitað bankahruninu og Icesave-málið tengist því en við höfum orðið vör við svo mikinn misskilning vegna rannsóknarnefndarinnar að mér finnst óhjákvæmilegt að nýta tækifærið hér í þessari ræðu að upplýsa aðeins til hvers þessi rannsóknarnefnd er. Fjölmiðlar hafa sumir hverjir greinilega misskilið algjörlega hvað nefndin gerir. Í 14. gr. laganna um rannsóknarnefndina stendur, með leyfi virðulegs forseta:

„Vakni grunur við rannsókn nefndarinnar um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað tilkynnir hún ríkissaksóknara um það og tekur hann ákvörðun um hvort rannsaka beri málið í samræmi við lög um meðferð sakamála.“

Hér er alveg skýrt að ef rannsóknarnefndin verður vör við eitthvað sem er refsivert að hennar mati á hún að koma því til sérstaks saksóknara. Hún á að gera það en ekki þingmannanefndin sem við erum að tala um að setja lög um bráðlega sem á að taka við skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Sú nefnd á ekki að senda neitt til sérstaks saksóknara, þingmenn eiga ekki að gera það heldur rannsóknarnefnd Alþingis, fyrir utan að sérstakur saksóknari fær ýmislegt eftir öðrum leiðum beint til sín.

Í 15. gr. stendur, virðulegur forseti, og ég ætla að vitna beint í það líka af því að mér finnst mikilvægt að reyna að skýra hlutverk nefndarinnar:

„Rannsóknarnefndin skal láta Alþingi í té skriflega skýrslu með rökstuddum niðurstöðum rannsóknar sinnar ásamt ábendingum og tillögum um úrbætur. Skýrslan skal þegar í stað gerð opinber.“

Rannsóknarnefndin á sem sagt að koma með ábendingar og tillögur um úrbætur og skýrslan er strax opinber. Þetta er ekki eitthvert skjal sem kemur hingað inn og þingmenn geti síðan pukrast með hana, alls ekki. Hún verður strax opinber og allir geta lesið hana, fjölmiðlar og allur almenningur. Þarna eiga að vera ábendingar og tillögur um úrbætur. Þetta er afar mikilvægt atriði að mínu mati, m.a. í ljósi þess sem ég sagði áðan. Í þessu litla samfélagi þar sem allir þekkja alla meira eða minna er mikilvægt að rannsóknarnefndin komi með skýrar tillögur og skýra niðurstöðu þannig að við hv. þingmenn þurfum ekki að velkjast í vafa um hvernig beri að túlka niðurstöðurnar. Það væri mjög óheppilegt að mínu mati ef þingmenn væru í vafa um hvort það þyrfti að breyta einhverjum lögum eða skoða ábyrgð fyrrverandi og jafnvel núverandi stjórnmálamanna. Það væri mjög óheppilegt vegna þess að allir þekkja alla.

Ég tel því óhjákvæmilegt og vona það svo sannarlega að rannsóknarnefndin komi með niðurstöður sem eru það skýrar að þingmenn velkist ekki í vafa um þessi atriði og það blasi við hvað þarf að gera. Ég held að rannsóknarnefndin þurfi að taka þennan kaleik, sem getur verið og er erfiður, og þess vegna eigi þau sem sitja í nefndinni að njóta ákveðinnar verndar. Það á ekki að vera hægt að draga þau fyrir dóm og við þurfum að tryggja það með lögum, þau verði helgir menn eins og það kallast, hafi ákveðna stöðu og við treystum því að það verði til þess að þau komi með skýra niðurstöðu af eða á um hlutina.

Varðandi skýrslu rannsóknarnefndarinnar þá kemur hún hingað inn til þingsins. Hér stendur, virðulegi forseti:

„Forseti Alþingis og formenn þingflokkanna fjalla um skýrslu nefndarinnar og gera tillögu um meðferð Alþingis á niðurstöðum hennar.“

Við höfum einmitt verið að ræða það hér í þinginu að bráðlega kemur mál hingað inn þar sem líka verður sett á stofn þingmannanefnd enda er það langeðlilegasta leiðin. Þannig hafa önnur þing gert þetta erlendis. Ég minni á Tamílamálið í Danmörku og önnur hneykslismál. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar kemur hingað, þingið fjallar um hana og tekur síðan af skarið um framhaldið eftir því hvað kemur út úr þessari rannsókn.

Virðulegur forseti. Aftur að því sem við gerðum hér eftir bankahrunið. Í gang fór mikil umræða um það hvort við ættum að borga þessa Icesave-reikninga. Talsvert mikið er til af gögnum sem vitna um að hæstv. ráðherrar okkar áttu í miklum samskiptum við kollega sína í Bretlandi, sérstaklega um að koma Icesave-reikningunum í breska lögsögu. T.d. eru til svör frá hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra Björgvin G. Sigurðssyni um að hann hafi átt fund með Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, um þetta mál, að reyna að liðka fyrir að Icesave-samningarnir færu yfir í breska lögsögu af því að talið var að Bretar settu talsvert stíf skilyrði fyrir slíku. Ljóst er að miklar umræður áttu sér stað milli stjórnvalda fyrir bankahrunið um að reyna að koma Icesave-reikningunum yfir í breska lögsögu.

Reyndar hefur Björgólfur Thor haldið því fram á opinberum vettvangi að eitthvað hafi verið til sem heitir „flýtimeðferð“. Ef Landsbankinn hefði fengið að mig minnir 200 milljónir punda hefði verið hægt að flýta þessari færslu yfir í breska lögsögu. Þetta var bara spurning um daga, klukkustundir og mínútur að lokum. Þessu hafa ráðherrar reyndar mótmælt og sagt að sé ekki rétt. Ég kaus á sínum tíma, virðulegur forseti, að eltast við þetta mál til þess að reyna að skilja hvað hefði verið í gangi. Ég var með svokallaðar raðspurningar og spurði nokkra ráðherra um það sama: Er þetta rétt? Eru til gögn um það í ykkar ráðuneytum, var hægt að flýta þessum færslum á Icesave-samningunum yfir í breska lögsögu? Þá stæðum við ekki í þessum sporum, værum ekki að ræða um þessa ríkisábyrgð á Icesave-málinu. Svarið var nei. Þeir sögðu að þeir hefðu ekki neinar upplýsingar um það. Ég spurði reyndar líka hæstv. þáverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde um þetta og fékk nei. Ég spurði hvort einhverjir embættismenn eða aðstoðarmenn þeirra sem unnu í kringum ráðherrann hefðu vitað af þessu og svarið var: Ekki svo ráðherra sé kunnugt. Síðan var upplýst að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, sem var þá efnahagsráðgjafi forsætisráðherra eða ríkisstjórnarinnar, ég veit ekki alveg hvort var, hafði haft einhverja vitneskju um þetta. Þetta er nú þó allt að verða gömul saga úr fortíðinni.

Við höfum alltaf haft miklar efasemdir um að við ættum að borga þessa reikninga og við höfum notað samlíkinguna um það ef hús brennur. Það er kannski ágætt að rifja upp að tryggingarsjóður tekur auðvitað á því, eða á að taka á því, að ef banki hrynur á að borga lágmarkstryggingu, 20.887 evrur, til þeirra sem tapa peningum. Þetta er eins og tryggingakerfi, maður tryggir húsið sitt gagnvart bruna og ef það brennur fær maður bætur. Síðan kemur spurningin: Hvað gerum við ef hvert einasta hús í landinu brennur? Getum við bætt það? Þetta er sambærilegt. Hér urðum við fyrir svo geysilegu áfalli að þetta er sligandi. Enginn hafði séð slíkar aðstæður fyrir, að það gæti skeð að bankarnir færu allir meira og minna. Einnig spilar inn í að þeir voru svo stórir, tíu til ellefu sinnum stærri en er eðlilegt í heildarsamhengi hlutanna á Íslandi. Enginn hafði séð þennan möguleika fyrir. Svo sitjum við uppi með þetta allt á bakinu, virðulegur forseti. Þetta er auðvitað algjörlega óbærileg staða.

Eins og ég sagði áðan hafa stjórnmálaflokkar almennt reynt að halda til haga þessari lagalegu óvissu en það er til algjört lykilskjal í þessu máli og það er þingsályktunartillagan sem var lögð fyrir á Alþingi á sínum tíma. Þá ákvað meiri hluti Alþingis, það var þáverandi hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem lagði þetta skjal hér inn, að borga þetta samt. Það er pólitísk niðurstaða. Í skjalinu er reynt að halda til haga lagalegu óvissunni en í kaflanum sem heitir „Pólitísk staða“ segir, með leyfi forseta:

„Þannig varð ljóst að lausn þessa máls væri forsenda þess að hægt væri að fjármagna að fullu þá efnahagsáætlun sem íslensk stjórnvöld höfðu sent Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til afgreiðslu og að Ísland stæði einangrað ef pólitískri samningaleið væri hafnað.“

Þarna var allt í uppnámi varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og lán o.s.frv. Við héldum fyrst að enginn mundi beita sér gegn okkur, síðan kom annað í ljós og þetta er lausnin. Ísland stendur einangrað ef pólitískri samningaleið er hafnað. Hér stendur, virðulegur forseti, í næsta kafla sem heitir „Niðurstaða íslenskra stjórnvalda“:

„Með allt framangreint í huga er það mat ríkisstjórnarinnar að hagsmunum Íslands til lengri tíma litið sé best borgið með því að stjórnvöld styðji við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta þannig að hann geti staðið straum af þeim kostnaði sem hlýst af því að ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um að því marki sem eignir viðkomandi banka standa ekki undir henni.“

Þetta er sem sagt heildarniðurstaða ríkisstjórnarinnar, að til lengri tíma sé best að ná þessari pólitísku niðurstöðu.

Síðan koma hér næst, virðulegur forseti, þessi umsömdu viðmið sem við höfum rætt um meira eða minna allan tímann. Menn héldu að kannski væri eitthvert hald í þessu en svo reyndist ekki vera. Þetta eru þrír liðir og ég ætla vitna í tvo þeirra af því að ræðutími minn er að verða búinn. Í fyrsta liðnum stendur, með leyfi forseta:

„Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.“

Þetta er mjög merkilegt. Þarna er ekki beint haldið til haga í þessum umsömdu viðmiðunum lagalegri óvissu af okkar hálfu. Það hefði verið eðlilegt að hérna stæði: En Íslendingar telja að …

Í öðrum lið kemur síðan fram viðurkenning allra aðila á þessari lagalegu stöðu. Þetta er auðvitað ekki gott fyrir okkur að hafa þetta ekki skýrara. Síðan stendur hér aftar, virðulegur forseti:

„Þessar samningaviðræður skulu fara fram með samhæfðum og samræmdum hætti og skal þar tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.“

Þetta eru þessi svokölluðu Brussel-viðmið. Þarna segir ríkisstjórnin: Við erum í þröng, við erum upp við vegg, þetta er neyðarástand og við teljum að við verðum að lenda þessu. Það er pólitísk niðurstaða að borga en við ætlum ekki að borga meira en við getum. Það eru Brussel-viðmiðin.

Síðan tók við heilmikið ferli þar sem samninganefnd samdi um niðurstöðu, Svavar Gestsson og fleiri. Reyndar varð uppi fótur og fit þegar niðurstaðan varð ljós af því að þá bað hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir um trúnað stjórnarandstöðunnar um niðurstöðuna svo að hún gæti farið í fjölmiðla og talað um hvað þetta væri frábær niðurstaða. Þetta var auðvitað fáránlegt, virðulegur forseti, og þessu var mótmælt mjög kröftuglega enda var þetta alls ekki við hæfi. Maður biður ekki stjórnarandstöðuna um trúnað og fer svo og brýtur hann sjálfur í fjölmiðlum klukkutíma seinna til þess að stýra umræðunni. Þetta var alveg met, virðulegur forseti.

Nú er þetta mál komið aftur hingað inn og okkur líður eins og í Groundhog Day, við endurupplifum sama málið aftur. Ef eitthvað er hefur það versnað. Ég vil benda á, þótt ég hafi ekki tíma til þess að fara yfir það, að m.a. Daniel Gros, sem er fulltrúi Framsóknarflokksins í Seðlabankanum, hefur bent á eitt atriði sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir en sé núna að blasir við. Það er að Bretar og Hollendingar höfðu ekkert inni í sínum tryggingarsjóðum frekar en við. Þeir eru sjálfir að lána sínum bönkum til þess að borga tryggingar, þeir lána á ákveðnum vöxtum eða eftir ákveðnu kerfi öllu heldur sem hægt er að reikna til vaxta. Það er talsvert lægri upphæð en þeir krefjast af okkur af lánunum sem við tökum hjá þeim. (Gripið fram í.) Það munar ekki einhverjum tugum milljóna heldur 195 milljörðum.

Þetta er allt með miklum ólíkindum, virðulegur forseti. Ég kemst ekki lengra í minni ræðu en átti talsvert mikið eftir. Kannski bíður það betri tíma.