138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:26]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Þetta mál, sem mörgum þykir of mikið rætt og öðrum þykir ekki fullrætt, er mjög snúið og ég hef velt því mjög mikið fyrir mér upp á síðkastið þegar ég hef hlustað á umræðuna hvað við þurfum að gera til að klára þetta mál og hvernig við getum sem þjóð komist út úr þessu vegna þess að það er með ólíkindum hversu sorglegt það er að við á hinu háa Alþingi skiptumst í stjórn og stjórnarandstöðu í máli þar sem við eigum að standa saman gegn viðsemjendum okkar sem eru Bretar og Hollendingar, viðsemjendum sem allir eru sammála um, held ég, í þessum sal að hafi beitt okkur miklu órétti. Ég held að við getum öll verið sammála um að þær aðferðir sem Bretar og Hollendingar hafa beitt eru ekki til eftirbreytni. Reyndar er það dálítið óljóst hverjum er hótað og hverjum er ógnað og hverjum ekki vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu sinni í gær að þetta hefðu verið grímulausar hótanir af hálfu Evrópusambandsins en hæstv. forsætisráðherra dró í land með það í hádeginu og sagði að þetta hefðu verið hótanir Breta strax í upphafi máls. Og svo ég útskýri það nákvæmlega var hæstv. forsætisráðherra ekki í salnum þegar hæstv. fjármálaráðherra talaði. En hæstv. fjármálaráðherra sagði, með leyfi forseta:

„Það var ekki talað hátt hér fyrstu vikurnar eftir að grímulausar hótanir bárust frá aðilum innan Evrópusambandsins um að láta okkur hafa verra af ef við drifum okkur ekki í að klára Icesave.“

Mér er í rauninni alveg sama hvort þetta var á upphafsdögum þessa máls eða hvort þetta hafi verið sagt alveg nýverið, mér þykir þetta mjög alvarlegt og get upplýst það að ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra um þetta, sem ég á von á að verði útbýtt hér innan skamms, þar sem ég óska svara við því hvernig utanríkisráðherra og utanríkisþjónustan brást við þessum grímulausu hótunum. En hvort þetta var einungis bundið við upphafið liggur ekki alveg ljóst fyrir vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra upplýsti líka í ræðu sinni í gær að það séu til skrifleg gögn sem geta leitt í ljós hverjir hafa verið að segja satt og hverjir ósatt varðandi tengsl Icesave-málsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og lán frá öðrum ríkjum. Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því yfir að enginn þekkti það betur en hann sem hefði verið í þessum samningaviðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í sumar, í júnílok minnir mig að hann hafi sagt.

Enn er margt óljóst í þessu máli og það er dálítið magnað að þegar ráðherra mætir í stólinn verður það í rauninni til þess að varpa fleiri spurningum upp en hann svaraði. En eftir ræðu ráðherrans í gær er ég ekki sannfærð um af hverju hæstv. ríkisstjórn telur sig ekki þess umkomna að geta vikið þessu máli til hliðar um stund og tekið fyrir hin mikilvægu mál sem við erum öll sammála um að liggi á að ljúka fyrir árslok. Það er engin sannfæring í því af hverju svo er, ég hef ekki fengið fullnægjandi skýringar á því. Mér finnst að upplýsa þurfi það sem hæstv. fjármálaráðherra ýjaði að í ræðu sinni að stæði annarri endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsáætlunarinnar í janúar fyrir þrifum og sagði eitthvað á þá leið að menn gætu látið sér detta í hug hvernig sú endurskoðun mundi ganga ef ekki væri búið að ljúka Icesave-málinu. Það er ótækt, frú forseti, að ýjað sé að því að við séum beitt hótunum og hæstv. fjármálaráðherra gerði raunar meira en að ýja að því, mér fannst hann segja það hreint og beint út og þess vegna er alveg ótækt að það skuli vera látið óáreitt og enginn hér til að hreyfa við því andmælum, ef rétt er. Við höfum a.m.k. ekki fengið gögn um það, en hæstv. fjármálaráðherra boðaði það að til væru skrifleg gögn um þessar hótanir frá í júní og ég mun óska eftir að fá þau gögn.

Mér finnst þetta mál snúast um það eitt að við erum með fyrirvara sem gerðir voru í sumar og áttu að takmarka áhættuna af þessu máli og gerðu það. Þeim fyrirvörum, það er sama hvað hæstv. fjármálaráðherra mótmælir því oft í þessum sal, hefur verið kollvarpað og allir, meira að segja maðurinn Ragnar H. Hall, sem fyrirvarinn var kenndur við, er ekki á því að þessi fyrirvari standi óbreyttur og hefur skrifað um það greinar sem hafa verið lesnar upp og ræddar í þaula. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að fara að endurtaka og lesa þá grein, henni hafa verið gerð góð skil hér, en hvernig getum við boðið börnum okkar, framtíðarkynslóðum þessa lands, upp á það að við tökum þennan séns? Ég treysti mér ekki til þess.

Hæstv. fjármálaráðherra bað um það í gær að láta lýðræðið ganga sinn kúrs, að hann fengi að bera pólitíska ábyrgð á þessu máli. Ég svara hæstv. fjármálaráðherra með því að ég get ekki leyft honum að bera ábyrgð á því sem börnin mín munu á endanum bera ábyrgð á. Það er bara eitthvað sem mér finnst vera of stórt mál og þess vegna finnst mér ósk hæstv. fjármálaráðherra um að við getum lent þessu máli með einhverjum hætti, eins og hann orðaði það, og við þingmenn ættum að leyfa honum að bera pólitíska ábyrgð á því, af því að hann langar til að gera það, sagði hann. Hann tók reyndar fram að þetta væri engin óskastaða og við getum öll tekið undir það. En ég get ekki fallist á það, frú forseti, að leyfa hæstv. fjármálaráðherra að bera ábyrgð á þessu máli svona þegar ég hef einhverja von um að ég geti á einhvern hátt breytt því. Það er það sem ég vil gera. Ég vil passa upp á það að við getum sagt að lokum, þegar þessu máli verður einhvern tíma lokið, að við hefðum gert allt sem við gátum. Ég tek undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni sem sagði áðan að samviska hans leyfði ekki annað en koma hér upp trekk í trekk. — Og hér kemur ein samviska inn í salinn, hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem ég bíð enn eftir og hvet til að segja mér hvað hann er að hugsa í þessu máli vegna þess að ég treysti á samvisku Ögmundar Jónassonar í þessu máli. Við gerðum það í sumar og við mörg hér inni treystum á það að hv. þm. Ögmundur Jónasson komi nú og sýni okkur allan sinn styrk í þessu máli með því að hjálpa okkur að koma því aftur í slíkan búning að við getum horft framan í börnin okkar og sagt: Við gerðum allt sem við gátum til að laga málið, eyða óvissunni, eyða áhættunni. Ég trúi því ekki að hv. þm. Ögmundur Jónasson geti komið hér og sagt mér að endurheimturnar úr Landsbankanum verði 90%. Ég held að hann geti ekki gert það en það er það sem verið er að segja við okkur í þessu. Ef allt fer á versta veg, við lærðum það í haust að allt fór allt á versta veg, ekkert okkar hefði trúað því að þetta gæti farið svona illa og ekkert okkar trúði því. Það kom okkur algerlega að óvörum allt sem gerðist hérna. Núna sjáum við að margt getur gerst Við sjáum að það eru svo miklir óvissuþættir í þessu, óvissuþættir sem við vildum koma í veg fyrir til að geta sagt við börnin okkar (Forseti hringir.) þegar fram líða stundir: Við komum í veg að þið sætuð uppi með opinn tékka.

Frú forseti. Ég bið þig um að setja mig aftur á mælendaskrá vegna þess að ég hef ekki lokið máli mínu.