138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú styttist í að ég haldi hér ræðu, það er þriðja ræðan mín um þetta mál. Ég er dálítið hræddur um að þær þurfi að verða fleiri því að ég hef ekki enn komist í gegnum meginatriði málsins.

Í þessari ræðu ætlaði ég að nefna atriði sem lýtur sérstaklega að hæstv. viðskiptaráðherra. Ég er að velta því fyrir mér hvað hafi orðið um hæstv. viðskiptaráðherra. Hefur frú forseti orðið vör við ráðherrann undanfarna daga eða vikur? Lítið hefur til hans spurst eins og hann var nú yfirlýsingaglaður í þessu máli lengi framan af. Hann sagði þá eitt og annað sem síðar kom á daginn að ekki var rétt. Ég mundi því gjarnan vilja fá tækifæri til að ræða nokkur þeirra atriða við ráðherrann.

Ég velti því svo fyrir mér hvort hæstv. forseti geti ekki gert hlé á fundi núna klukkan tíu. Tíufréttir eru að byrja og einhverjir þeirra fjölmörgu sem hafa verið að fylgjast með umræðum hér í sjónvarpi gætu viljað (Forseti hringir.) horfa á fréttirnar en skipta svo aftur yfir og fylgjast með.