138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni hjartanlega fyrir þessa upprifjun. Það var góð og þörf upprifjun á öllum þeim hótunum sem þingið hefur mátt búa við síðan Icesave-samningarnir komu heim, sú glæsilega niðurstaða sem þeir voru og kynntir fyrir þinginu.

Í framhaldi af þessu langar mig til að rifja aðeins upp ræðu hæstv. forsætisráðherra frá því 28. ágúst í aðdraganda þess að hér átti að fara fram atkvæðagreiðsla um Icesave-samningana með þeim fyrirvörum sem fjárlaganefnd var búin að gera við frumvarpið, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu virða niðurstöðu Alþingis og gera allt sem í hennar valdi stendur til að ljúka málinu farsællega. Íslensk stjórnvöld munu freista þess að sannfæra Breta og Hollendinga um að skynsamlegt sé að þeir fallist á forsendur Alþingis fyrir ríkisábyrgðinni eins og þeir koma fram í lögunum. Þetta verður verkefni ríkisstjórnarinnar í kjölfar samþykktar laganna, …“

Hvað kom fyrir, hv. þingmaður? Hvað kom fyrir? Út af hverju erum við enn að ræða þetta mál? Af hverju var ekki staðið í lappirnar með þetta?

Ég gríp aftur niður í ræðu hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Niðurstaða Alþingis er í sínum kjarna eins og að var stefnt af hálfu ríkisstjórnarinnar, …“

Þetta segir hæstv. forsætisráðherra 28. ágúst í aðdraganda atkvæðagreiðslu. Getur hv. þingmaður upplýst mig og þingheim um hvað gerðist þarna í millitíðinni?

Nú erum við komin fram í desember. Þarna virðist hæstv. forsætisráðherra einbeitt í því að berjast fyrir hagsmunum þjóðarinnar eins og sagði til í þeim lögum sem Alþingi samþykkti og forseti staðfesti 2. september á þessu ári. Hvað breyttist í millitíðinni?