138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er mikilvægt að menn tali af ábyrgð um þessa hluti og reyni að byggja þá á bestu fáanlegum upplýsingum. Ég segi alveg hiklaust að það er ábyrgðarhlutur að hlaupa með óstaðfestar lausafregnir um eitthvað af þessu tagi og gefa sér umsvifalaust að landið sé að lenda í greiðsluþroti. Það er mikill ábyrgðarhlutur að standa þannig að málum. Það er ekkert sem bendir til þess. Við höfum engar upplýsingar um það í fjármálaráðuneytinu að skuldir ríkisins og hins opinbera séu að breytast að neinu marki frá því sem reiknað hefur verið með að undanförnu nema til lækkunar vegna þess að ríkið er að komast betur frá endurreisn bankakerfisins og við munum taka minni erlend gjaldeyrislán en áður hafði verið reiknað með.

Hitt hefur lengi legið ljóst fyrir að það er vandasamt að ná endanlega utan um skuldir einkaaðila og það mun ekki skýrast fyrr en á næstu missirum nákvæmlega hvað eftir stendur í íslenska bókhaldinu þegar skiptum gömlu bankanna er lokið, þegar úrvinnslu mála hjá skuldsettum og því miður að mestan part ónýtum eignarhaldsfélögum er lokið og þegar við höfum greint það nákvæmlega hvernig þeir hlutir verða. Þess vegna hefur það legið ljóst fyrir að um heildarskuldir einkaaðila og hvernig þær verða bókfærðar smátt og smátt eftir banka- og efnahagshrunið, er óvissa. Stórir hlutar þeirra skulda varða ekki íslenska ríkið eða greiðslugetu íslenska þjóðarbúsins svo sem eins og gríðarmiklar skuldir tiltekinna fjölþjóðafyrirtækja sem eru að uppistöðu til með starfsemi sína erlendis og fjármagnaðar af erlendum bönkum, þar af eitt stórt fjölþjóðafyrirtæki sem er með heildarskuldir sem nema um 70% af vergri landsframleiðslu. Skuldir dótturfélaga erlendra móðurfélaga fyrst og fremst vegna þess að þau hafa verið byggð upp með mikilli skuldsetningu erlendis frá til að greiða síðan arðinn úr landi í formi afborgana og vaxta nema um 40% af vergri landsframleiðslu. Þetta eru ekki tölur sem við þurfum að hafa áhyggjur af. Það eru fyrst og fremst skuldir ríkisins, hið opinbera, og innlendra fyrirtækja sem við þurfum að standa á bak við.