138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[13:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég er ekki að biðja um að við reynum að máta okkur inn í veruleika ársins 2007. Ég er einfaldlega að spyrja eftir þessu: Ef skattkerfið væri látið ósnert og engu breytt, bara gildandi lög væru látin standa, og sá veruleiki borinn saman við aðgerðir ríkisstjórnarinnar, væri þá skattbyrðin að léttast á þennan tekjuhóp, þá sem hafa undir 270.000 kr. á mánuði, eða ekki? Ég skil hæstv. fjármálaráðherra þannig að svo sé ekki.

Hann bendir hins vegar á allt aðra umræðu. Hann bendir á að við höfum ekki efni á að láta persónuafsláttinn fylgja verðlagi núna um áramótin. Við getum rætt það. Ég held að það sé ýmislegt til í því. Ég bara bið um að þegar verið er að máta þessar breytingar ríkisstjórnarinnar við veruleikann í dag haldi menn því ekki fram að skattbyrðin sé að léttast á láglaunafólk þegar staðreyndin er sú að hún verður því miður að vaxa. Hún mun vaxa minna á láglaunafólk en þá sem hærri hafa tekjurnar, en hún mun samt vaxa. (Forseti hringir.)