138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:40]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Okkur er vandi á höndum að ræða þennan skattapakka ríkisstjórnarinnar í 1. umr. Hér er um umtalsverðar breytingar að ræða og á margan hátt grundvallarbreytingar á íslensku skattkerfi. Þessar tillögur þarfnast mikillar skoðunar og mér finnst eðlilegt að í 1. umr., á þeim takmarkaða tíma sem þar er, nýti ég tímann til að fara gróflega yfir málið og benda á þau atriði sem mér þætti æskilegt að tekin yrðu til skoðunar í hv. efnahags- og skattanefnd. Langt er liðið á desembermánuð og við vitum að þessi umræða mun takmarkast við þann mánuð, þetta verður að klárast fyrir áramót. Ég hygg að allir þingmenn muni leggja sitt af mörkum til að svo geti orðið. Ég vil því leggja áherslu á það hér í upphafi að það er mjög brýnt að hv. efnahags- og skattanefnd fái gott tækifæri til að fara mjög ítarlega yfir þessar breytingar. Nefndin þarf einnig að skila hv. fjárlaganefnd skoðun sinni á fjárlagafrumvarpinu sem fyrir liggur. Það hefur tekið töluverðan tíma fyrir hv. efnahags- og skattanefnd að skila þeirri umsögn. Hún hefur ekki enn borist og getur ekki borist fyrr en nefndin hefur skoðað þær tillögur sem fyrir liggja.

Við fyrstu sýn virðast þær breytingar sem hér eru lagðar til verulega flóknar. Ég vil segja, vegna umræðna um skattahækkanir almennt, og þá gagnrýni sem komið hefur fram á Sjálfstæðisflokkinn, að hann sé í þessari atrennu á móti skattahækkunum, og það er alveg rétt — Sjálfstæðisflokkurinn vill í þessari atrennu að menn líti til annarra átta við að auka tekjur. En ég vil að það komi skýrt fram að Sjálfstæðisflokkurinn stóð að skattahækkunum um síðustu áramót, stóð að hækkun á tekjuskatti, stóð að hækkun á óbeinum sköttum og gerði töluverðar breytingar í átt að skattahækkunum vegna þess efnahagsástands sem kom upp nú síðasta haust og við þekkjum svo vel. Það er skoðun Sjálfstæðisflokksins að ekki verði gengið lengra en þar var gert í skattahækkunum vegna þess erfiða ástands sem er á íslenskum heimilum og hjá fjöldamörgum fyrirtækjum.

Ég held að hv. efnahags- og skattanefnd verði í athugun sinni að líta sérstaklega til þess hvaða áhrif þessar umtalsverðu breytingar hafa á meðalfjölskyldu á Íslandi. Þá er ég ekki einungis að tala um breytingar á tekjuskatti heldur einnig þær breytingar sem lagðar eru til á óbeinum sköttum og ýmiss konar neyslusköttum og breytingar á virðisaukaskatti, hvaða áhrif það muni hafa á rekstur meðalfjölskyldu með meðaltekjur. Ég tel mjög mikilvægt að það sé skoðað mjög rækilega.

Það er líka nauðsynlegt fyrir hv. efnahags- og skattanefnd að skoða rækilega hvaða áhrif þessar breytingar hafa á venjuleg fyrirtæki á Íslandi. Þá er ég ekki að tala um stærstu fyrirtækin. Mikið hefur verið fjallað um þau að undanförnu en það er líka mjög brýnt að menn skoði hinn almenna atvinnurekstur í landinu. Ég held að flestir þeir sem reka meðalstór og jafnvel minni fyrirtæki hafi reynt eins og hægt er að halda starfsfólki sínu eftir að hrunið varð og verja þau störf sem þar eru. Ekki fer alltaf mörgum sögum af því þegar fólki er sagt upp í slíkum fyrirtækjum, einfaldlega vegna þess að þar er kannski verið að segja upp þremur, fjórum eða fimm manneskjum en ekki 30 eða 40 eins og fréttir bárust af í stærri fyrirtækjum í síðustu viku. Mér finnst því mjög brýnt að áhrif þessara breytinga á þennan hóp fyrirtækja verði skoðuð, sérstaklega vegna þess að þau skipta mjög miklu máli. Það held ég að við séum öll sammála um, þau skipta mjög miklu máli í íslensku atvinnulífi, þessi massafjöldi fyrirtækja sem meðalstóru fyrirtækin eru. Það væri því mjög æskilegt að hv. efnahags- og skattanefnd fengi ráðrúm til að fara rækilega yfir þennan þátt málsins.

Vegna þessara hluta allra held ég einnig að þessi hækkun á tryggingagjaldinu, sem er veruleg, og ég tók eftir því að samtök atvinnulífsins tóku undir það að tryggingagjaldið yrði hækkað verulega, hafi mikil áhrif á þessi minni fyrirtæki í landinu. Að öllu þessu sögðu vil ég að það komi fram að ég er ekki að gera lítið úr þeim vanda sem fram undan er í ríkisrekstrinum. Ég veit fullvel að afla þarf mikilla tekna til að standa undir þeim áföllum sem íslenskur ríkissjóður hefur orðið fyrir í kjölfar þessa hruns. En þar sem svo skammur tími hefur gefist til að undirbúa svona gríðarlegar breytingar held ég að það þurfi að kanna heildaráhrifin mjög vel.

Ég tel enn fremur að hv. efnahags- og skattanefnd þyrfti að skoða sérstaklega þær forsendur sem eru undir þeim útreikningum sem skattstofnarnir eiga að gefa. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar hefur nefnilega komið fram að sú aðlögun sem gerð var á miðju ári virðist ekki hafa skilað þeim árangri sem að var stefnt. Það á bæði við um aðhaldsaðgerðir, í því efni er sjálfsagt að viðurkenna að mjög erfitt er að fara í slíkar aðgerðir á miðju ári, og tekjuhliðina eða skattahliðina, þar hafa þessar aðgerðir ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt. Ríkisendurskoðun hefur sagt í álitum sínum til hv. fjárlaganefndar að það virðist að hluta til vera vegna þess að þeir skattstofnar sem undir eru eru rýrari en menn höfðu gert ráð fyrir í þeim áætlunum sem fyrir liggja. Það er vegna þess að hér hefur orðið hrun og tekjur einstaklinga hafa dregist saman og fyrirtæki hafa líka verið að reyna að laga sig að breyttum aðstæðum og tekjur þeirra hafa á mörgum stöðum verulega dregist saman. Allt þetta þarf að skoða mjög rækilega í hv. efnahags- og skattanefnd til að hægt sé að leggja mat á þær breytingar sem verða lagðar til í 2. umr. um þennan skattapakka.

Þegar farið var að gera breytingar á skattkerfinu, árið 1988, draga úr þrepaskiptingu og taka upp staðgreiðslukerfi með háum persónuafslætti var litið á það sem mikið framfaraskref. Skattkerfið hefur á liðnum árum einkennst af því að vera frekar einfalt og skýrt og menn hafa átt mjög auðvelt með að reikna sig niður á sína prívatskatta. Við fyrstu sýn virðist mér, þetta þarf að skoðast miklu betur, mér finnst ekki ábyrgt að hafa uppi stóryrði í 1. umr., að hér sé verið að flækja hlutina verulega þannig að skattkerfið verði mun ógegnsærra en það er nú. Það veldur mér verulegum áhyggjum vegna þess að bæði er erfitt að gera sér grein fyrir því hvernig skattkerfið er upp byggt og einnig er hætta á að undanskot verði í skattkerfinu og menn fari að fara meira í svarta atvinnustarfsemi og slíka hluti. Ég hef áhyggjur af því og mér finnst nauðsynlegt að menn fari líka rækilega yfir þann þátt, að skattkerfið sé þannig búið að allt sé sjáanlegt þar og ekki verði hætta á því að menn fari að skjóta sér undan sköttum. Það viljum við alls ekki að verði.

Ég tek eftir því að aðilar vinnumarkaðarins hafa töluverðar áhyggjur af þessum breytingum. Það hefur komið fram hjá Samtökum atvinnulífsins og einnig hjá ASÍ. Menn hafa áhyggjur af því að verið sé að ganga of langt í fyrsta kasti og að þurfti hefði að fara hægar í skattahækkanirnar og gera aðrar breytingar. Ég vil í því sambandi enn og aftur vonast til þess að menn skoði aðrar leiðir í vinnu efnahags- og skattanefndar. Ég hjó eftir því, bæði í ræðu formanns efnahags- og skattanefndar, Helga Hjörvars, og einnig í andsvari frá hv. þm. Magnúsi Orra Schram, sem ég hygg að hafi sæti í efnahags- og skattanefnd, að þeir telja nauðsynlegt að líta til annarra átta líka og þar nefndu þeir hugmyndina um skattlagningu á séreignarsparnaðinum og hvenær sú skattlagning eigi sér stað. Við skulum ekki gleyma því að þarna var um frestun að ræða og það er alveg sjálfsagt að skoða það við þær aðstæður sem nú eru hvort ástæða sé til að taka þá ákvörðun aftur. Nú tala menn um að það þurfi að taka aftur ákvarðanir um skattalækkanir og þá er alveg eins hægt að segja að taka megi aftur ákvarðanir um að fresta ekki þessum sköttum, með alveg nákvæmlega sömu rökum. Ef það verður til þess að hlífa íslenskum heimilum og íslenskum fyrirtækjum við mjög þungum sköttum er sjálfsagt að líta til þess. Það er gríðarlega mikilvægt að við fáum hjólin aftur í gang og það þarf að auka neyslu í landinu. Í því skyni skiptir verulegu máli að við séum ekki að leggja á skatta sem eru of þungbærir fyrir hinn almenna Íslending.

Einnig virðast vera í þessu, og það á eftir að koma betur í ljós þegar menn fara að skoða málin, atriði sem þarf að skoða, hvort það hafi verið tilgangurinn með þessum breytingum. Til dæmis hefur verið bent á það að breytingar á neyslusköttunum hafi þau áhrif að verið sé að mismuna fyrirtækjum eftir því hvers konar starfsemi þar er. Ef maður kaupir tilbúinn mat úti í söluskála borgar maður 7% skatt en ef maður kaupir tilbúinn mat á veitingahúsi borgar maður 14% skatt. Þarna hlýtur að hafa orðið einhver misskilningur í þessari skattlagningu og þetta er eitt atriði sem þarf þá að athuga hvort ekki þurfi að laga. Það vekur mann til umhugsunar um það hvort fleiri slík atriði þurfi að gaumgæfa gætilega svo að ekki verði þau mistök í lagasetningunni sem þurfi að laga þegar lengra er haldið.

Mig langar til að hæstv. fjármálaráðherra svari því í lokaræðu sinni á eftir hvort það er rétt, sem kom fram í umræðunni í dag, að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins telji að fjármálaráðuneytið hafi ekki leitað samstarfs við AGS um þær skattbreytingar sem hér eru til umfjöllunar. Mig langar að forvitnast um það hjá hæstv. fjármálaráðherra hvernig samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er háttað þegar kemur að aðlögun í ríkisfjármálum. Ég taldi alveg einsýnt að þegar farið væri út í stórkostlegar breytingar á skattkerfinu á grundvelli þessarar samstarfsáætlunar væri það í samstarfi við AGS. Mig langar til að fá viðhorf hæstv. fjármálaráðherra til þess og svar við því hvernig það er.

Að lokum langar mig að geta þess að ég vonast til að efnismikil umræða fari fram í efnahags- og skattanefnd, að menn leiti umsagna víða. Ég vona að menn fái tækifæri til að gefa ítarlegar umsagnir og að vinnan verði eins vönduð og hægt er þannig að í 2. umr. verði hægt að fara efnislega í einstaka þætti þessa máls. Í 1. umr. er einungis hægt að fara mjög almennt yfir hlutina og setja fram almenn sjónarmið um þessi efni.