138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[20:45]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er ánægjulegt að hægt sé að lappa það mikið upp á frumvörpin frá ríkisstjórninni að það sé tæknilega hægt að framkvæma þau. Það er þó gott að það náðist í nefndinni.

Ég verð samt að segja, þrátt fyrir ágætt svar hv. þingmanns við andsvari mínu, að ég hef engu að síður þessar sömu áhyggjur áfram vegna þess að þegar einstaklingar hér á landi hafa unnið allt sitt líf, komið sér upp húsnæði og búa þar og missa síðan maka sinn er oft og tíðum um skuldlausa eign að ræða. Þannig er það mjög víða hjá eldra fólki. Ég óttast að þegar þessi skattur er kominn á munum við aftur sjá að þessir einstaklingar, þessar ekkjur og ekklar, komi enn og á ný til stjórnvalda og spyrji: Hvað get ég gert til þess að reyna að komast út úr þessu annað en að selja það heimili sem ég hef búið mér og minni fjölskyldu í gegnum tíðina? Það er akkúrat þetta sem ég hef áhyggjur af að gerist.

Frú forseti. Mig langar að nota seinna andsvar mitt til að beina spurningu til hv. þingmanns sem varðar heildarsýnina á hvernig ríkisstjórnarflokkarnir nálgast það viðfangsefni að ná okkur upp úr þessu efnahagshruni. Ef maður skoðar fræðin aðeins er ljóst að þeir sem hafa áður gengið í gegnum efnahagskreppur hafa dregið þann lærdóm af sinni stöðu að það dugir ekki að reyna að skattleggja sig út úr kreppunni. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að gengið sé út á ystu endamörk þess sem hægt er að skattleggja hér á landi með þessum tillögum ríkisstjórnarflokkanna sem hér liggja fyrir hver af annarri eða hvort hann telji að enn sé borð fyrir báru. Ég hjó eftir því fyrr í dag þegar við áttum orðastað að hann taldi rétt að skoða enn frekar og aftur hvort það væri rétt að taka upp milliþrepið í virðisaukaskattinum til dæmis. Koma fleiri (Forseti hringir.) skattahækkanir í kjölfarið á þessum?