138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá kröfu sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir setti fram. Það er eðlilegt að það verði gert með þeim hætti að formaður samninganefndarinnar verði kallaður fyrir fjárlaganefnd til að gera grein fyrir því hvað hér er eiginlega á seyði. Þetta er svo ótrúlegt að maður trúir varla sínum eigin augum eða eyrum, að verða vitni að öllu því sem hér er að gerast í kvöld. Hér liggur fyrir skjalfest frá þessari lögfræðistofu Mishcon de Reya að þessi mál gætu hugsanlega komið að gagni til að ná fram betri niðurstöðu í þessum Icesave-málum. Gögnin hafa verið kynnt fyrir samninganefndinni — og fjármálaráðuneytinu sem þýðir að hæstv. fjármálaráðherra hefur haft þessar upplýsingar. Hæstv. utanríkisráðherra virðist hins vegar ekki hafa verið talinn þess verðugur að fá þessar upplýsingar og hann neitar í rauninni að hafa setið fund sem lögfræðiskrifstofan fullyrðir að hann hafi setið. Ég spyr: Var þetta einhvers konar skyggnilýsingarfundur þar sem hæstv. utanríkisráðherra birtist skyndilega? [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Góður.)