138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

dagskrá fundarins.

[15:15]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Fyrst hvað varðar umræður á fundi þingflokksformanna í dag. Það kom upp mjög seint nú um helgina að ekki yrði af fyrirhugaðri utandagskrárumræðu um efnahagsmál. Þá liggur það ljóst fyrir og segir sig sjálft að á þingflokksformannafundi nokkrum mínútum áður en á að hefja þingfund verður dagskránni ekki breytt, hún er komin til að vera.

Það sem ég vil segja vegna þeirra orða sem hér féllu hjá hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, um hvað er kominn tími á að ræða hér á þinginu, og hvað er kominn tími til að gera, þá er kominn tími til þess að bregðast við vanda heimilanna. Það er kominn tími til þess að grípa til aðgerða í efnahagsmálum þjóðarinnar til að stöðva það hrun sem er fram undan ef við höldum áfram að búa til óvissu í skattakerfinu, ef við höldum áfram að búa þannig um hnútana að vextir verði háir og ef við höldum áfram að skapa óvissu í grunnatvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútvegsmálum. Það er kominn tími til þess að grípa til aðgerða í þessum málum, (Forseti hringir.) annað verður að bíða. Það er mikilvægast að grípa til aðgerða í efnahagsmálum og fjármálum heimilanna.