138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

staða atvinnulausra.

[11:33]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Rauði þráðurinn í stefnu félagslega ábyrgrar vinstri stjórnar er að standa vörð um innviði velferðarsamfélagsins og tryggja fulla atvinnu í landinu. Ég fullyrði að ekkert mál hefur verið eins oft á borðum þessarar ríkisstjórnar og einmitt þetta. Ég fagna því sem fram kom í máli hæstv. félagsmálaráðherra, að stefnt er að því að enginn maður þurfi að vera lengur atvinnulaus en í þrjá mánuði án þess að honum berist atvinnutilboð. Við höfum ekki látið þar við sitja. Við höfum gripið til breytinga í skattkerfinu til að styrkja sprotafyrirtæki. Það er stefnt að því að efla viðhaldsverkefni, fara á markvissan hátt í viðhaldsverkefni í opinberum mannvirkjum til að skapa þar atvinnu hjá iðnaðarmönnum sem hafa orðið illa úti í kreppunni. Sömu sögu er að segja um ferðaþjónustuna. Þar er einnig horft til atvinnusköpunar og það er ánægjulegt að lesa það í fjölmiðlum í dag að á síðasta ári var raunaukning í tekjum ferðaþjónustunnar yfir 20%. Hún gefur af sér 155 milljarða kr. á ári í tekjur fyrir þjóðarbúið.

Það var dapurlegt að hlýða á málsvara Sjálfstæðisflokksins festast enn þá einu sinni í gamla þráhyggjufarinu, stóriðju. Staðreyndin er sú að frá því að fyrsta álverið var reist á Íslandi hefur fjölgun á vinnumarkaði verið um (Forseti hringir.) 85.000 manns. (Gripið fram í: Hann vitnaði …) (Forseti hringir.) Það má rekja um 3.000 störf (Forseti hringir.) á vinnumarkaði á Íslandi til álvera, þetta er 1,7% af vinnumarkaðinum. (Forseti hringir.) Þetta eru einu úrræðin sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur fram að færa. (Forseti hringir.) Þetta var einhvern tímann kallað að pissa í skóinn sinn. (Gripið fram í.)