138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:57]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var bara eðlilegur fótaskortur á tungunni að forseti sneri nafni mínu við, ég vona að þingforseti sé ekki farinn að temja sér að tala aftur á bak.

Svo ég komi að efni málsins þá hef ég hugsað ákaflega mikið um þetta frumvarp vegna þess að í huga mínum takast á tvenn sjónarmið, annars vegar jafnrétti kynjanna, sem ég er ákaflega hlynntur í huga og hjarta, og hins vegar sjónarmið frelsisunnandi manns sem vill hafa sem minnsta og víðasta lagaumgerð um sitt líf.

Ég benti á það við 1. umr. um frumvarpið að ekki væri hægt að leysa öll mál með lagasetningu og tók það sem dæmi að við getum ekki sett kvóta á það hversu margir einstaklingar eru dæmdir í fangelsi af hvoru kyni fyrir sig heldur verðum við að leysa þann vanda með öðrum hætti en einfaldri lagasetningu.

Hitt er svo önnur saga að jafnréttismálum hefur hnikað áleiðis á ævi minni og það svið mála er eitt af þeim fáu sviðum þar sem ég hef séð verulegar framfarir. Málflutningur hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur hefur sannfært mig um að við þurfum lagasetningu í þessa átt og ég mun styðja þetta frumvarp.