138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[16:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér er ljúft að svara þessu andsvari. Í fyrsta lagi varðandi það að þetta sé til hagsbóta fyrir fyrirtækin en þau viti það ekki. Það er nefnilega dálítið skrýtið. Ef það er til hagsbóta fyrir fyrirtækin að hafa jafnmarga af karlkyni og kvenkyni í stjórnum af hverju er það ekki gert? Hvað vantar upp á þekkinguna?

Varðandi brot á eignarrétti. Það hvort að uppfylla þurfi heilbrigðisskilyrði, upplýsa ársreikninga og annað slíkt eru kvaðir sem menn gangast inn á þegar þeir stofna hlutafélag eða einkahlutafélag. Ef eigendurnir mega hins vegar ekki einu sinni vera sjálfir í stjórn nema falla undir þessi ákvæði þá finnst mér að gengið sé nærri eignarréttinum. Að menn megi ekki stjórna sínum eigin fyrirtækjum eins og þeir vilja finnst mér fulllangt gengið. Það er eins og ríkið segði: Ég ætla að skipa menn í stjórn þarna. Að ríkið segði að fjármálaráðherra mundi skipa þrjá menn í stjórn. Það mundi maður líka líta á sem brot á eignarrétti.

Það að skikka menn til að taka fólk inn í stjórn sem þeir hugsanlega treysta ekki og geta ekki fundið (Gripið fram í.) þannig að — ja, þeir hljóta að finna einhverjar konur. Það er nú misjafnt hverja menn þekkja, nú er ég að tala um það þegar menn eru með eintómar konur (Gripið fram í.) í kringum sig og finna ekki karlmenn, sú staða getur líka komið upp, eins og í einu prófkjöri Vinstri grænna þegar of margar konur voru á listanum en þá gilti fléttulistinn allt í einu ekki, merkilegt nokk. Þetta getur nefnilega líka verið á hinn veginn.

Það er verið að grípa inn í það hvernig menn mega tilnefna stjórnir fyrirtækja sinna, hvernig þeir mega stjórna fyrirtækjum sínum og mér finnst það vera töluvert mikið atriði að sá sem á fyrirtæki ráði því hvernig því er stjórnað. Það finnst mér vera hluti af eignarréttinum. (Gripið fram í.)