138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[17:02]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er fegin að hv. þingmaður notaði ekki eignarréttinn sem afsökun fyrir því að styðja ekki þetta mál. Hér kom hæstv. viðskiptaráðherra áðan og kvað alveg upp úr um að eignarrétturinn takmarkaði þetta ekki. Það er alls ekki þannig að þeir sem eiga fyrirtækin geti bara gert það sem þeim sýnist og þurfi ekki að taka tillit til grundvallargilda í samfélaginu eins og jafnréttismála. Að sjálfsögðu er ekki hægt að afsaka sig með eignarréttinum varðandi þetta mál.

Hv. þingmaður dró hér fram að Vigdís Finnbogadóttir hefði orðið forseti á sínum tíma, og að hæstv. forsætisráðherra hefði náð því fyrst kvenna að verða forsætisráðherra í landinu. Hún sagði að það hefði verið gert án kvóta. Það er alveg rétt. En hvað með það? (Gripið fram í.) Það vantar hérna alveg stórkostlega mikinn árangur á öðrum sviðum. (EÓÁ: Ertu að gera lítið úr þessum árangri?) Nei, ég er ekki að gera lítið úr þessum árangri, alls ekki. Hv. þingmaður má ekki misskilja það. En hvað með það þó að þessar konur hafi náð þessum fína árangri án kvóta? Það réttlætir ekki það að setja ekki á kvótann vegna þess að við sjáum slakan árangur annars staðar. Hv. þingmaður sagði: Kynferði á ekki að skipta máli. Það er rétt, það er hárrétt hjá þingmanninum en kynferði skiptir svo sannarlega máli. Af hverju eru ekki fleiri konur í forustu í fyrirtækjunum? Af hverju ekki? Af því að kynferði skiptir máli. Kynferði skiptir alveg gríðarlega miklu máli. Það er svo mikil vöntun á konum og hefur verið um hundruð ára, maður getur sagt þúsundir ára. Kynjakvótinn er tæki til að laga það, tímabundið tæki þangað til þetta er komið í lag.

Hver eru skilaboðin til ungra kvenna? Skilaboðin eru: Við ætlum að tryggja ykkur jöfn tækifæri eins og karlarnir fá. Það eru skilaboðin. Við ætlum að tryggja að hér sé kvóti þannig að konurnar fái jöfn tækifæri af því að það er þörf á því. Þetta hefur ekki skeð af sjálfu sér, því miður.