138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

fjölmiðlar.

423. mál
[15:18]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Forseti. Með svo stórt og viðamikið málefni eins og þetta óskar maður þess að maður hefði töluvert lengri tíma í andsvörum ef ætlunin er að komast í gegnum brotabrot af þeim spurningum sem maður þyrfti að spyrja.

Mjög mikil áhersla er lögð á að lagafrumvörp og reglugerðir sem hafa áhrif á gjöld ríkissjóðs verði kostnaðarmetin áður en kynning fer fram í ríkisstjórn eða reglugerðin birt. Ég hefði talið að bæta þyrfti við að strax og frumvörp koma fram ættu að koma tillögur um hvernig viðkomandi ráðuneyti hyggst bregðast við kostnaðaraukanum. Eins og þau segja á fjárlagaskrifstofunni í fjármálaráðuneytinu þarf að óbreyttu að fjármagna þessa útgjaldaaukningu með lántöku. Eru hugmyndir um að gefa þessari stofnun einhvers konar auknar gjaldtökuheimildir? Er hugsanlega verið að tala um að við skerum enn á ný af nefskattinum sem fer til Ríkisútvarpsins? Eru einhverjar hugmyndir í ráðuneytinu um það hvar eigi að taka þessa peninga?