138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

sjálfvirk afsláttarkort.

444. mál
[19:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er með einfalda spurningu fyrir hæstv. ráðherra, hún er mjög í anda þess sem við höfum verið að ræða hér. Við vorum að ræða um rafræna sjúkraskrá út af fyrirspurn sem hv. þm. Róbert Marshall bar fram. Ég var þar afskaplega ánægður með viðbrögð hæstv. heilbrigðisráðherra og er hér að vekja athygli á máli, til þess að reyna að fylgja því eftir, sem ég ætla ekki annað en að góð þverpólitísk samstaða sé um, og tengist þessu máli sem ég vísaði í í þeirri fyrirspurn sem við ræddum áðan. Fyrirspurnin er um sjálfvirk afsláttarkort. Hún er í þrem liðum:

1. Hvað líður innleiðingu sjálfvirks afsláttarkorts Sjúkratryggingastofnunarinnar?

2. Hvers vegna þarf enn að leggja fram greiðslukvittanir fyrir þjónustu sem sinnt er á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum öðrum en Landspítala?

3. Hvenær er gert ráð fyrir að afsláttarkortskerfið taki gildi?

Þarna sjáum við birtingarmynd þessara rafrænu samskipta sem snúa beint að þeim sem þurfa á þjónustunni að halda. Þeir sem þurfa mikið á þjónustu að halda þurfa að líta til margra staða. Því miður höfum við ekki verið nægilega framarlega þegar kemur að þessum rafrænu samskiptum á heilbrigðissviði. Ég veit að hæstv. ráðherra er áhugamaður um að bæta úr því.

Ég vísaði í það hér áðan hvernig ég beitti mér sem ráðherra. Ég flutti frumvarp um lagabreytingar þannig að við gætum nýtt rafrænu samskiptin, en þegar ég kom í ráðuneytið var sú staða ekki uppi þannig að byrja þurfti á því að breyta lögunum. Samhliða lét ég vinna að því — ég veit að hæstv. ráðherra minntist á það hér áðan að enn er verið að nýta þá nefnd sem ég setti á laggirnar sem hafði það að markmiði að koma þessum samskiptum áleiðis, þ.e. að koma í framkvæmd einni rafrænni sjúkraskrá yfir landið og öllu því hagræði sem felst í því. Og ekki bara hagræði heldur öryggi.

Hér er hins vegar um að ræða hreina og klára þjónustu við sjúklinga sem þurfa á þessari þjónustu að halda. Ég hef áhuga á því, virðulegi forseti, að heyra hvernig staðan er í því máli og þess vegna ber ég fram þær þrjár spurningar sem ég las hér upp áðan.