138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

fríverslunarsamningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kólumbíu o.fl.

580. mál
[18:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar þar sem óskað er heimildar til handa ríkisstjórninni til að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kólumbíu. Þessi samningur var undirritaður í Genf í Sviss þann 25. nóvember 2008. Samhliða er leitað heimildar til að fullgilda landbúnaðarsamning milli Íslands og Lýðveldisins Kólumbíu. Sá samningur var undirritaður sama dag.

Samningaviðræðum um fríverslunarsamninginn og landbúnaðarsamninginn lauk í júní 2008 og viðræðurnar, sem voru ekkert sérstaklega erfiðar, tóku u.þ.b. eitt ár. Þessi samningur við Kólumbíu er mikilvægur til að bæta aðgang fyrirtækja í EFTA-ríkjunum að markaðnum í Kólumbíu. Samningurinn mun draga úr eða í sumum tilvikum afnema algjörlega viðskiptahindranir og hann mun því bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja í EFTA-ríkjunum innan Kólumbíu. Við gerð þessa samnings var ekki eingöngu litið til umfangs núverandi viðskipta, það var líka litið til þeirra tækifæra sem kunna að skapast í framtíðinni þar sem samningurinn ryður úr vegi hindrunum fyrir fyrirtæki í EFTA-ríkjunum sem hafa áhuga á að sækja fram á þessum markaði.

Við skulum ekki gleyma því, frú forseti, að Kólumbía er eitt af þeim ríkjum í Suður-Ameríku sem hefur átt við mikil vandamál að glíma. Þar hefur fátækt verið ríkjandi og þar hefur verið sundrung og óöld en í tíð Uribes, núverandi forseta, hafa stjórnvöld gert það sem þau geta til þess að koma á friði í landinu. Það liggur fyrir að í því skyni hafa þau notið alþjóðlegrar ráðgjafar og m.a. lagt sig í líma við það að fara eftir öllum þeim samningum og sáttmálum sem tengjast Sameinuðu þjóðunum, t.d. um mannréttindi og frið. Þess vegna held ég, frú forseti, eins og þegar er hægt að lesa í erlendum ritum, að líklegt sé að efnahagur landsins haldi áfram að blómgast. Hann hefur reyndar eflst hraðar en í öðrum löndum á svipuðum slóðum og þess vegna tel ég að þarna sé um að ræða land sem við eigum að reyna að efla tengsl okkar við eins og hægt er.

Sú breyting sem hefur orðið á efnahag Kólumbíu birtist m.a. í því að útflutningur héðan til Kólumbíu hefur aukist á síðustu árum og nánast fimmfaldaðist á árunum 2005 til 2009. Við skulum vona að sú þróun haldi áfram og gera má ráð fyrir því að eftir því sem hagur heimamanna blómgist sækist þeir enn frekar eftir því að kaupa ýmsar vörur héðan. Þetta eru sjávarútvegsvörur sem á mælikvarða heimamanna eru lúxusvörur og þess vegna held ég að hér sé eftir nokkru að slægjast.

Fríverslunarsamningurinn við Kólumbíu kveður á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörum, sjávarafurðum og unnum landbúnaðarvörum. Þannig munu tollar á öllum helstu sjávarafurðum og iðnaðarvörum frá Íslandi falla niður þegar samningurinn tekur gildi eða að loknu fimm til tíu ára tímabili sérstakrar aðlögunar.

Tollar við innflutning á sjávarafurðum til Kólumbíu eru fyrir gildistökuna, þ.e. áður en Alþingi hefur veitt heimild sína, á bilinu 5–20% þannig að engum ætti að dyljast að með niðurfellingu þessara tolla skapast nýjar forsendur fyrir aukin viðskipti með sjávarafurðir. Þessi samningur er einnig af svokallaðri annarri kynslóð fríverslunarsamninga og inniheldur auk ákvæða um vöruviðskipti ákvæði um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, samkeppnismál, hugverkaréttindi, opinber innkaup og ákvæði um lausn ágreiningsmála.

Síðari samningurinn, landbúnaðarsamningurinn milli Íslands og Kólumbíu, er viðbótarsamningur og gerður með vísan til fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Kólumbíu. Auk fríverslunarsamningsins myndar landbúnaðarsamningurinn hluta fríverslunarsvæðisins með slíkum samningum, sem eru þá annars vegar á milli Noregs og Kólumbíu og hins vegar á milli Sviss og Kólumbíu. Verslun með óunnar landbúnaðarvörur fellur undir landbúnaðarsamninginn og hann kveður á um að tollar á tilteknum landbúnaðarvörum verði lækkaðir eða felldir niður. Kólumbía mun m.a. fella niður tolla á vatni og ég veit að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, sem kemur úr Skagafirði, mun gleðjast yfir því að tollar á lifandi hrossum munu einnig falla niður frá og með gildistöku samningsins. Ekki síður mun það gleðja hjarta hans og margra okkar sem erum unnendur íslensks landbúnaðar að tollar á íslensku lambakjöti falla að fullu niður að loknum tíu ára aðlögunartíma.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að þegar þessari umræðu lýkur verði þessari tillögu vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar.