138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

bætur til bænda og björgunarsveita.

[14:27]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég er á sömu slóðum og fyrirspyrjandinn á undan og ætla að halda mig við hamfarasvæðið á Suðurlandi. Ég vil eins og aðrir færa þakkir fyrir þær yfirlýsingar sem gefnar voru áðan og fagna þeim, mér finnst mjög mikilvægt að þessar yfirlýsingar hafi komið svo sterkt fram. Ég vil aðeins hnykkja á því í fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra.

Hæstv. ráðherra gerði grein fyrir því að ráðherrar hafi farið ítarlega yfir málið á ríkisstjórnarfundi og gert grein fyrir því sem að þeim snýr. Ég spyr hvort Alþingi geti fengið aðgang að þessum upplýsingum vegna þess að eins og hér hefur komið fram er þetta mál sem snertir okkur öll og við viljum öll leggja okkar af mörkum og geta orðið eins mikið að liði í þessu og hægt er.

Varðandi þá aðstoð sem íbúum svæðisins mun bjóðast og bætur fyrir það tjón sem orðið hefur tel ég afar mikilvægt að sett verði upp einfalt kerfi. Það síðasta sem þetta ágæta og duglega fólk þarf á að halda núna er að þurfa að fara í aðra baráttu, ekki við náttúruöflin heldur við kerfið, þannig að ég óska eftir því að hæstv. ráðherra svari því hvernig fyrirkomulag bóta vegna tjónsins verður háttað, hvernig aðstoðinni verður í rauninni fyrir komið. Getum við ekki sammælst um að tryggja að það verði einfalt, að haft verði samband við fólkið og því gerð grein fyrir því hvernig þetta verður? Getum við ekki haft þetta einfalt og skilvirkt til að koma þessu öllu á sem einfaldastan hátt til fólks og greiða fyrir því að uppbygging geti hafist á ný?

Einnig vildi ég spyrja, í framhaldi af orðum hv. þm. Árna Johnsens á undan varðandi ráðningu á björgunarsveitarmönnum sem hann gerði að umtalsefni, hvort björgunarsveitir (Forseti hringir.) fái einhverjar greiðslur úr ríkissjóði vegna þess álags sem á þeim hefur verið og vegna þess hve langan tíma björgunarsveitirnar (Forseti hringir.) hafa staðið í stórræðum þarna. Hefur eitthvað komið til tals að bæta björgunarsveitunum (Forseti hringir.) þann kostnað?