138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir fyrirspurnina. Við deilum þeirri skoðun að auðvitað sé mikilvægt að öllum sé ljóst að ákvörðunarvald varðandi fjárveitingar er hjá Alþingi, og fjárlaganefnd á þar að véla um.

Það hefur viðgengist í mörg ár að menn hafa gefið yfirlýsingar um einhver áform og í sjálfu sér væri ekkert athugavert við þær yfirlýsingar ef um væri að ræða að því fylgdi að menn ætluðu að beina því til fjárlaganefndar að þetta yrði sett í fjárlög. Það sem skiptir þó mestu máli er að auðvitað koma upp ýmis mál. Við höfum rætt það áður í fjárlaganefnd og í þinginu að það eru ákveðin vandkvæði við það hvernig á að bregðast við innan ársins. Þá þarf að taka miklu oftar upp fjáraukalög eða með einhverjum öðrum hætti að finna leiðir vegna þess að lögin eru í raunveruleikanum þannig að ekki má ráðstafa einni einustu krónu nema því sem er í fjárlögum sem þýðir að við ættum ekki að geta brugðist við einstökum þáttum umfram þá rúmu 4 milljarða kr. sem eru til ráðstöfunar hjá fjármálaráðuneytinu. Auðvitað getur fjármálaráðuneytið hugsanlega tekið af þeirri fjárveitingu en það er eðlilegt að þetta komi hingað.

Það sem skiptir samt meginmáli í þessu er að þarna gefur ríkisstjórnin fyrirheit og kemur með yfirlýsingar um að hún vilji efna til átaks til viðhalds og opinberra framkvæmda, vilji auka framkvæmdafé til að reyna að stuðla að aukinni atvinnu í landinu. Það held ég að allur þingheimur sé sammála um að sé mikilvægt. Það er búið að gera tillögur um hvernig eigi að gera þetta, það er með aðkomu lífeyrissjóða, sveitarfélaga og annarra aðila að slíku átaki. Mér finnst ekkert óeðlilegt að ríkisstjórnin komi með slík áform og leggi þau fram en ég hef rætt við fjármálaráðherra um að eðlilegt sé að þá fylgi sú setning að verkefnið fái afgreiðslu og samþykki Alþingis.